Efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar

Fimmtudaginn 09. september 2010, kl. 11:25:26 (0)


138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[11:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er furðulegt að upplifa það að fulltrúar ríkisstjórnarinnar skuli enn og aftur reyna að hagræða tölum til að láta hlutina líta út fyrir að vera einhvern veginn allt öðruvísi en þeir eru þegar blasir við hverjum manni hvernig ástandið er og hefur verið birt af Hagstofunni. Var reyndar frekar vandræðalegt fyrir ríkisstjórnina þegar Hagstofan birti — daginn eftir að forsprakkar hennar fóru með miklar ræður um hvað allt væri á uppleið — hinar raunverulegu tölur sem sýndu áframhaldandi samdrátt. Kakan er sem sagt að minnka ársfjórðung frá ársfjórðungi. Það er að dragast saman sem við höfum til að skattleggja. Það er ekki hvað síst vegna skattstefnu ríkisstjórnarinnar sem ýtir undir samdrátt frekar en hitt. Þetta er alþekkt í heiminum þessa dagana þar sem menn eru víða að fást við erfiðleika í efnahagsmálum en líka í gegnum söguna að þegar menn lenda í þrengingum eins og menn ganga í gegnum núna er ekki hægt að skattleggja sig út úr þeim. Slík stefna hefur þveröfug áhrif við það sem ætlast var til. Og þó leyfir hv. þm. Helgi Hjörvar sér að koma hér og tala um skattstefnu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Enginn flokkur hefur gengið jafnlangt í skattalækkunum eða tillögum um það og Samfylkingin og það hefur heldur enginn flokkur gengið nærri því jafnlangt og Samfylkingin í því að auka útgjöld ríkisins á versta hugsanlega tíma. Þensluaukning og útgjaldaaukning ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, einkum þó og sér í lagi ráðuneyta Samfylkingarinnar sló öll met Íslandssögunnar. Svo leyfir hv. þingmaður sér að koma hér og reyna ekki aðeins að falsa tölur samtímans heldur endurskrifa söguna líka.

Nú hefur birst samantekt World Economic Forum, Alþjóðaefnahagsráðsins, þar sem Ísland fellur enn í samkeppnishæfni ríkja, er nú komið niður í 31. sæti. En ef eingöngu er litið til stöðu þjóðhagsmála, þjóðhagslegs umhverfis í landinu, (Forseti hringir.) er Ísland í 138. sæti, einungis eitt land neðar, það er Simbabve. Þetta er afleiðingin af efnahagsstefnu þeirrar ríkisstjórnar (Forseti hringir.) sem við sitjum nú uppi með.