Efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar

Fimmtudaginn 09. september 2010, kl. 11:30:20 (0)


138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[11:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki eins og aðrir að reyna að breyta fortíðinni heldur ætla ég að ræða um vandann sem við er að glíma í dag, 22.500 störf hafa tapast. Það kemur fram í auknu atvinnuleysi en það sem alvarlegra er er að það kemur líka fram í útflutningi á aðalauðlind þjóðarinnar sem er mannauðurinn og það er stórhættulegt. Ég hef miklar áhyggjur af því að við séum að stefna inn í stöðnun, hættulega stöðnun, fyrir þessa þjóð. Það eru bara mínar persónulegu áhyggjur.

Skattstefna ríkisstjórnarinnar undanfarið hefur verið að leysa kreppuna með hækkun skatta og að flækja skattkerfið. Í stuttu máli má segja það þannig. Og óvart, því að ég trúi því ekki að menn séu að gera það meðvitað, hefur skattstefnan unnið gegn því að skapa atvinnu. Óvart. Tryggingagjaldið var stórhækkað. Það er skattur á atvinnu og ekkert annað. Hækkun á fjármagnstekjuskatti á hagnað fyrirtækja og eignarsköttum, allt vinnur þetta gegn því að skapa vinnu. Vinna verður ekki sköpuð nema með fjárfestingum og fjárfesting verður ekki til nema með áhættufé eða lánsfé. Umhverfisskattarnir koma svo til viðbótar til að keyra á vanda fyrirtækjanna. Allir þessir skattar vinna gegn vilja til að skapa vinnu og það er mjög skaðlegt.

Hugmynd Sjálfstæðisflokksins, sem lögð var fram fyrir síðustu áramót, var að skattleggja séreignarsparnaðinn og falla frá öllum öðrum skattahugmyndum hæstv. ríkisstjórnar. Þetta má hugsanlega gera enn þá.

Fjármálaráðherra bað Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um tillögur um skattbreytingar með því fororði að það yrði til að auka skattheimtu um 1–2% af vergri þjóðarframleiðslu. En í áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er einmitt lokið lofsorði á skattstefnu Sjálfstæðisflokksins í 18 ár. Ég skora á menn að lesa það því það stendur þar nákvæmlega að skattstefna Sjálfstæðisflokksins í 18 ár hafi verið af hinu góða.