Efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar

Fimmtudaginn 09. september 2010, kl. 11:32:53 (0)


138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[11:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta voru ágæt öfugmæli í lokin. En það er áhyggjuefni hversu óáreiðanlegar hagtölur við þurfum að styðjast við á köflum en þær nýju tölur sem við höfum fengið þar sýna okkur að við eigum langan og erfiðan leiðangur fyrir höndum. En sá árangur sem náðst hefur skapar okkur viðspyrnu og það er gríðarlega mikilvægt að við nýtum þá viðspyrnu á vetri komanda og höfum um það nokkra samstöðu í þinginu. Þar er í fyrsta lagi mikilvægt að ná seinni stóra áfanganum í ríkisfjármálum, sérstaklega með niðurskurði en einnig með sköttum.

Í öðru lagi er mikilvægt að tryggja skjóta úrlausn á skuldavanda heimilanna í landinu í framhaldi af dómi Hæstaréttar. Í þriðja lagi er það verðmætasköpunin sem mun ráða úrslitum um það hvort okkur tekst að láta landið rísa og hvort okkur tekst að koma hjólunum í gang. Á þá sveif verðum við öll að leggjast, á þá sveif að auka lánstraust Íslands, á þá sveif að skapa eftirsóknarvert umhverfi til fjárfestinga vegna þess að við þurfum á fjárfestingum að halda. Við stjórnmálamennirnir í þessum sal þurfum að hafa þroska og ábyrgðartilfinningu til að vera ekki í lýðskrumi og upphrópunum heldur takast með raunhæfum hætti á við þau verkefni sem fyrir höndum eru.