Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Fimmtudaginn 09. september 2010, kl. 11:47:56 (0)


138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[11:47]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi í stuttu máli gera grein fyrir breytingartillögu við það frumvarp sem hér um ræðir, það lýtur að 3. gr. frumvarpsins. Það barst athugasemd í miðju ferlinu frá Ríkisendurskoðun þess efnis að í 3. gr. væri gert ráð fyrir því að stjórnmálasamtök gætu á kosningaári sótt um fjárstyrk, allt að 3 milljónir, til Ríkisendurskoðunar. Athugasemd Ríkisendurskoðunar snerist um að ekki væri eðlilegt að sú stofnun mundi endurskoða reikninga stjórnmálasamtaka og fjárstyrki til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda á sama tíma og hún veitti styrki til þeirra. Þessi grein snýr að nýjum framboðum og er ætlað að auðvelda nýjum framboðum að bjóða fram. Hún þykir til mikilla lýðræðisbóta en við ákváðum að taka mark á ábendingum Ríkisendurskoðunar. Því hefur þessari grein verið breytt þannig að nú sækja stjórnmálasamtök um fjárstyrk til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins.

Eins og fyrr segir kemur þessi breytingartillaga frá allsherjarnefnd allri eins og raunar málið allt, þ.e. nefndarálitið er frá allsherjarnefnd. Sjónarmið hv. þm. Þórs Saaris í þessum efnum eru kunnug. Hann er áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd og skrifar ekki upp á nefndarálitið sem nefndin skilar. Ég get að mörgu leyti tekið undir þær skoðanir sem hv. þingmaður hefur í þessum efnum þó að ég mundi ef til vill orða þær aðeins öðruvísi. En ég áskil mér rétt til þess að taka þátt í því ásamt honum og vonandi öðrum þingmönnum að gera frekari breytingar á þessum lagaramma. Ég tel fulla ástæðu til að haldið sé áfram þeirri vinnu sem hér er hafin eins og raunar kemur fram í nefndaráliti allsherjarnefndar.