Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Fimmtudaginn 09. september 2010, kl. 11:52:28 (0)


138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[11:52]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en tekið vel í þá fyrirspurn sem til mín er beint í þessum efnum því að eins og hv. þingmanni er kunnugt tel ég hér um að ræða skref í rétta átt og vildi gjarnan að gengið yrði lengra. Hins vegar er það einfaldlega svo að ef maður lætur „pragmatíkina“ ráða — ég leyfi mér að sletta því orði hér í ræðustól Alþingis — er hér á ferðinni frumvarp sem er góð sátt um á milli meiri hluta þings og allra stjórnmálaflokka og því öruggt að þær breytingar sem hér eru kynntar til sögunnar gangi í gegn. Hins vegar hef ég ákveðnar skoðanir í þá áttina hvað varðar nafnleyndargólfið sem hér er sett í 200 þús. kr., hvort það eigi yfir höfuð að vera til staðar, ég mundi gjarnan vilja skoða það. Því sjónarmiði hefur jafnframt verið hreyft að fyrirtækjum eigi ekki að vera heimilt að styrkja stjórnmálaframbjóðendur eða stjórnmálasamtök.

Ef slíkir styrkir væru algerlega gagnsæir væri alla vega búið að koma í veg fyrir einhvers konar leyndarhyggju í stað þess ef slík framlög eða hagsmunir gætu verið leynileg. Ef slíkir styrkir væru bannaðir þyrfti að sama skapi að svara þeirri spurningu hvernig efnaminni einstaklingar eigi að taka þátt í stjórnmálum. Hvernig eiga efnaminni stjórnmálasamtök að geta boðið fram og tekið þátt í hinu lýðræðislega ferli? Það eru margvíslegar spurningar sem þarf að svara í þessum efnum, að leggjast betur yfir og ræða. Ég tel koma vel til greina að menn líti aðeins í kringum sig, afli gagna, skoði hvernig þetta er gert í nágrannalöndum, skoði hvaða lönd hafa gengið hvað lengst í þessum efnum og hvernig þessu sé best háttað, þannig að menn geti treyst því að engin brögð séu í tafli í hinu lýðræðislega ferli á Íslandi. (Forseti hringir.)