138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:25]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem í ræðustól til að lýsa ánægju minni með þessa skýrslu, sérstaklega með það að búið sé að draga saman niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis varðandi fjármálakerfið, en í nýju skýrslunum var mjög erfitt að fá yfirsýn yfir þá gagnrýni sem rannsóknarnefndin hafði á fjármálakerfið og jafnframt þær tillögur sem hún gerði. Ég fagna líka þeim tillögum sem þingmannanefndin leggur fram. Ég sé að tími minn er mjög naumur.

Frú forseti. Ég ætla að spyrja hv. þm. Magnús Orra Schram út í fullyrðingu sem er á bls. 25. Þar segir þingmannanefndin að stjórnmálamenn verði að vera tilbúnir að axla þá ábyrgð að breyta stefnu sinni í samræmi við stöðu efnahagslífsins á hverjum tíma. Í ljósi þess að við búum (Forseti hringir.) við samdrátt vil ég spyrja hv. þingmann hvort efnahagsstefna (Forseti hringir.) núverandi ríkisstjórnar sé í samræmi við (Forseti hringir.) þann lærdóm (Forseti hringir.) sem þingmannanefndin (Forseti hringir.) vill að við drögum (Forseti hringir.) af skýrslunni.