138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:35]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir orð hans í garð allra nefndarmanna sérstaklega vegna þess að við níumenningarnir höfum, held ég, lagt mikið á okkur í þessu starfi.

Hann spyr sérstaklega um stöðuna á uppgjöri við lánasamninga þegar bankarnir voru seldir eða keyptir. Nú verð ég bara að viðurkenna skort á þekkingu á þeirri upplýsingalöggjöf sem um ræðir. Ég átta mig ekki á því hvort við getum með einhverjum hætti fengið upplýsingar um þessa stöðu vegna þess að þetta voru einkaaðilar úti í bæ og þá er spurningin hver er staða ríkisins í þessu máli og hver er skylda framkvæmdarvaldsins til að gefa upplýsingar. Ég verð bara að viðurkenna að ég hef ekki þá þekkingu á málinu til að geta fullyrt um það. Það leiðir líka orðræðuna að stöðu Alþingis og stöðu alþingismanna, hvernig við erum í stakk búin til að afla þeirra upplýsinga sem við viljum, hvort sem það eru þessar upplýsingar eða einhverjar aðrar.