138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:21]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Þetta eru reglur sem áformað er að taki gildi 1. október nk. Að vísu er gert ráð fyrir því í reglunum sjálfum að þær verði endurskoðaðar fyrir 1. október 2011 þannig að kannski fæst þá einhver reynsla á þessar breyttu reglur á næsta þingi. En mér finnst mikilvægt ef nefndin hefur í fórum sínum eitthvað eða hefur rætt einhverja sérstaka tiltekna þætti að þeim væri þá komið á framfæri við þingið og við utanríkismálanefnd og aðra þá sem fjalla um EES-málin til þess að menn geti haft þær til hliðsjónar þegar þeir meta reynsluna af þessum breyttu reglum. En það er sannarlega gert ráð fyrir því í þessum reglum að aðkoma þingsins sé þéttari og á fyrri stigum en gert hefur verið til þessa og einnig að einstakar fagefndir þingsins fái þingmál sem varða EES-samninginn til umfjöllunar á sínu fagsviði, sem hefur verið lítið um til þessa eftir því sem ég best veit.