138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Einhvern tímann spurði danskur maður frá Danske Bank: Hvaðan koma peningarnir sem Íslendingarnir eru með? Enginn hefur svarað þessu enn þá — nema ég í frumvarpi um gagnsæ hlutafélög [Hlátur í þingsal.] en þar svara ég því hvaðan þessir peningar koma. Ég efast um að nokkur hafi nennt að setja sig inn í það. Ein meginástæða hrunsins er nefnilega sú að það er veila í hlutabréfaforminu sem veldur því að menn geta spólað upp eigið fé, hagnað og áhrif og völd með því einu að stofna hlutafélög sem mynda keðju eða lánað sjálfum sér til kaupa á hlutabréfum, verið með krosseignarhald o.s.frv.

Þetta hefur ekki verið rætt, hvorki ræddi rannsóknarnefndin það né hefur þingmannanefndin gert það. Ég tel þetta mjög mikilvægt vegna þess að svo hrynur öll spilaborgin og þá kemur í ljós að ekkert er inni í henni. Það var aldrei neitt inni í henni. Samt er þetta gjörsamlega löglegt og þetta er um allan heim, frú forseti, þessi veila er ekki bara á Íslandi. Þessi veila er um allan heim, þetta er mjög algengt í Japan og Kóreu, og Þýskalandi þar sem Deutsche Bank á meiri hlutann af öllu þýsku atvinnulífi og öll stærstu fyrirtæki Þýskalands eiga í Deutsche Bank.

Ég vildi gjarnan að þessari spurningu yrði svarað og að menn mundu nenna að setja sig inn í þessa einföldu röksemdafærslu þar sem ég bjó til 30 fyrirtæki sem voru galtóm en sýndu öll eigið fé og öll voru óháð, enginn samstæðureikningur og ekki neitt. Þetta var meginuppistaðan í spurningu danska mannsins: Hvaðan komu peningarnir sem Íslendingar áttu? Svarið er: Þeir voru ekki til. En þeir voru sýndir, það var lánað út á þá og matsfyrirtækin gáfu gott mat út á þá.