138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég hvet hv. þm. Pétur Blöndal til að senda mér þessa ágætu skýrslu sína og ég mun lesa hana af athygli. Ég vissi hreinlega ekki af henni, en hef grunsemdir um að þetta tengist einhverju sem ég hef kallað spagettí-viðskipti og er stundum kallað krosseignatengsl eða skeljar. Eyjar eins og Tortóla og Cayman eru gjarnan notaðar til að búa til svona gervifélög og hefur maður einmitt tekið eftir ótrúlegri hugarfærni í að búa til nöfn á þessi fyrirtæki. Það mætti halda að þessir ágætu menn væru skáld í hjarta sínu. Einhvern veginn finnst mér óþægilegt að lesa nöfnin, þau gefa til kynna virðingarleysi fyrir fjármunum og slíku.

Varðandi ábyrgð þingsins í tengslum við fjárlög er mjög margt sem við þurfum að skoða. Þetta sem þú nefnir er alveg þess virði að skoða. Ég held að við þurfum nánast að byrja frá grunni og skoða okkur inn í innsta kjarna. Ég verð að segja að ég átti t.d. von á miklu verri umræðum í dag, ég verð að hrósa þingmönnum fyrir að hafa setið á strák sínum og haldið sig innan þeirra marka sem óskað var eftir að við yrðum, að við mundum veita þessari skýrslu athygli okkar. Ég fagna því að okkur er ekki alls varnað. — Ég er svo lasin að þið verðið að afsaka hvað ég á erfitt með að hugsa skýrt.

Ég held að við séum á réttri leið þó að við eigum enn langan veg eftir.