138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, tillögu til þingsályktunar um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem lögð var fram 12. apríl 2010.

Þingmannanefndin sem sett var á stofn með lögum nr. 146/2009 og kosin á Alþingi 30. desember 2009 er skipuð níu þingmönnum úr öllum þingflokkum og er sú sem hér stendur í þeim hópi þingmanna sem falið var að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, draga lærdóm af efnahagshruninu og leggja fram tillögur til úrbóta á lögum og reglum. Nefndinni er veitt heimild til þess að leggja til rannsóknir og úttektir á vegum Alþingis og er ætlað að taka afstöðu til þeirra mála er falla undir hlutverk þingsins. Afrakstur þeirrar vinnu er sú ítarlega skýrsla og þingsályktunartillaga sem hér er til umfjöllunar og lýsir meginniðurstöðum og ályktunum þingmannanefndarinnar.

Þingmannanefndinni var einnig falið það hlutverk að fjalla um framgöngu ráðherra í aðdraganda efnahagshrunsins og leggja í framhaldinu mat á það hvort tilefni væri til málshöfðunar fyrir landsdómi fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð samkvæmt 13. gr. laga um landsdóm, nr. 3/1963. Sú niðurstaða liggur fyrir og verður tekin til umfjöllunar síðar þegar fjallað verður um tillögu til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum.

Þingmannanefndin fékk á sinn fund gesti og naut sérfræðiaðstoðar fagaðila eins og fram kemur í skýrslunni auk ómetanlegrar vinnu nefndasviðs Alþingis. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þeim fyrir og þeim samnefndarmönnum mínum sem voru í nefndinni og sérstaklega fyrir góða verkstjórn hv. þm. Atla Gíslasonar.

Tillaga til þingsályktunar um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sýnir að þingmannanefndin hefur lagt sig alla fram um að mæta þeim áfellisdómi sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um stjórnsýslu landsins með tillögum að úrbótum. Því reynir nú á Alþingi að rísa undir hlutverki sínu og ábyrgð, gera viðeigandi lagabreytingar og framkvæma það sem þingsályktunartillagan felur í sér. Því er mikilvægt að þráðurinn slitni ekki á milli rannsóknarnefndar Alþingis og Alþingis sjálfs.

Meginniðurstöður og ályktanir skýrslunnar eru flokkaðar í eftirtalda kafla: Alþingi, fjármálafyrirtæki, eftirlitsaðila, stjórnsýslu, siðferði og samfélag og rannsókn og úttektir. Ég mun hér gera að meginmáli mínu kaflann um siðferði og samfélag, horfi þar til umfjöllunar vinnuhóps um siðferði og starfshætti í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og dreg í framhaldi af því þann lærdóm og þær ályktanir sem þingmannanefndin kemst að niðurstöðu um um það bindi.

Í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sérstaklega horft til þess hvort skýringu á falli íslensku bankanna megi að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði. Samfélagsleg ábyrgð fjármálafyrirtækja gagnvart almennum viðskiptavinum, viðskiptalífinu og samfélaginu í heild er gífurlega mikil.

Bankastarfsemi byggist á trausti. Bankarnir nutu víðtæks trausts og brugðust því. Fjármálafyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu og geta aldrei orðið einkamál þeirra sem að þeim standa. Þess vegna er í alþjóðlegum viðmiðum um fjármálafyrirtæki lögð áhersla á að eigendur og stjórnendur hafi ekki aðeins nauðsynlega þekkingu á starfseminni heldur líka mikla dómgreind og séu traustir og heiðarlegir.

Einkavæðing ríkisbankanna á sínum tíma sýnir mikilvægi þess að verklagsreglur séu skýrar og að áhersla sé lögð á vönduð vinnubrögð og gagnsæi. Fjórir hv. þingmenn þingmannanefndarinnar, þau Magnús Orri Schram, Oddný G. Harðardóttir, Birgitta Jónsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir, leggja til að sérstök rannsókn fari fram á því hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna og að ítarleg rannsókn verði framkvæmd svo fullljóst verði hvernig staðið var að einkavæðingunni.

Aðdragandi bankahrunsins lýsir sér í siðferðilegu gjaldþroti lykilstjórnenda bankanna í sjálftöku ofurlauna, kaupréttarsamningum og bónusgreiðslum til starfsmanna fjármálafyrirtækja sem gengu langt úr hófi fram. Eitt af því sem einkenndi útrásartímann var að launamunur, stéttaskipting og ójöfnuður óx hröðum skrefum. Þingmannanefndin leggur til að óheimilt verði að lána starfsmönnum fjármálafyrirtækja fé til kaupa á hlutabréfum með veði í bréfunum og telur að lögbinda eigi ákvæði sem setji strangari skorður við fyrirkomulagi á launa- og lífeyrisgreiðslum til starfsmanna fjármálafyrirtækja sem leitt geti til aukinnar áhættusækni í rekstri þeirra.

Viðbrögð stjórnenda bankanna við þeim óveðursskýjum sem tóku að hrannast upp í fjármálaheiminum sumarið 2007 bentu ekki til þess að draga þyrfti saman seglin, heldur buðu bankarnir í lúxusferðir. Árið 2008 var farið að hrikta alvarlega í stoðum fjármálaheimsins og vaxandi óþols farið að gæta meðal innherja og starfsmanna bankanna sem vildu fara að losa um eigur sínar á þeim tíma. Á sama tíma voru peningamarkaðssjóðirnir auglýstir sem örugg fjárfesting þó að eignasamsetning þeirra hefði breyst. Sparifé landsmanna var á þann hátt nýtt til að halda fyrirtækjum gangandi.

Ljóst er að skammtímahagsmunir stærstu eigenda bankanna hafa vegið þyngra en langtímahagsmunir fyrirtækja og samfélags. Vöxtur fjármálafyrirtækjanna var án fyrirhyggju og einkenndist af oflæti og óhófi. Ljóst er að afleiðingar af stofnun Icesave-reikninganna eru eitt sorglegasta dæmið um að stjórnendur Landsbanka Íslands brugðust samfélaginu. Þeir brugðust með ábyrgðarleysi og siðferðisleysi og alvarlegar afleiðingar þess eru ljósar fyrir íslenskt samfélag. Viðskiptalífið einkenndist um of af því að líta svo á að að það sem ekki væri beinlínis bannað væri leyfilegt. Þingmannanefndin telur að sporna verði við svo þröngri lagahyggju og líta frekar til anda laganna.

Stjórnsýslan starfar í mikilli nálægð við hið pólitíska vald. Sú nálægð getur skapað hagsmunaárekstra og leitt til spillingar. Þessu er hægt að mæta með því að setja siðareglur í opinbera stjórnsýslu sem væri ætlað að skerpa á siðferðilegri fagvitund starfsmanna, skýra meginskyldur þeirra gagnvart almenningi og auka sjálfstæði þeirra gagnvart stjórnmálamönnum. Starf samráðshóps forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands sýnir alvarlega veikleika í íslenskri stjórnsýslu og óvandaða stjórnarsiði í aðdraganda bankahrunsins. Þar vil ég nefna frumkvæðisleysi og áherslu á ábyrgð annarra, sjálfstæði eða ofríki embættismanna gagnvart stjórnmálamönnum, slæm áhrif pólitískra ráðninga, skort á faglegum vinnubrögðum, ósjálfstæði gagnvart fjármálalífinu og ótta við að valda áfalli og að lokum pólitíska lömunarveiki.

Margvíslegir brestir í stjórnsýslunni urðu til þess að vinna samráðshópsins skilaði litlum árangri. Ráðherrar virðast hafa verið illa upplýstir og þeir báru sig heldur ekki eftir upplýsingum. Þar af leiðandi sinntu þeir ekki upplýsingaskyldu sinni gagnvart þinginu. Sú skylda hvílir á ráðherrum að afla upplýsinga hjá embættismönnum og eiga þeir ekki að geta skýlt sér á bak við vanþekkingu. Í krafti stöðu sinnar og hlutverks bera þeir höfuðábyrgð á að gæta öðru fremur að almannahagsmunum sem leiðtogar landsstjórnarinnar. Það vantraust sem skapaðist á milli ráðherra og einstaklinga í stjórnkerfinu truflaði upplýsingaflæðið og eðlileg samskipti á milli ráðherra.

Verulega skorti á að gengið væri úr skugga um stöðu mála og að mikilvægar ákvarðanir væru vel undirbúnar og rökstuddar. Illa var haldið utan um fundargögn og skráningu atburða. Stjórnmálamenn og embættismenn stóðu sem lamaðir frammi fyrir því að bankakerfinu var leyft að vaxa langt umfram getu stjórnvalda til að ráða við það. Kjarkleysi og skortur á frumkvæði einkenndi viðbrögð þeirra. Slæmar embættisfærslur og vanþroskaðir stjórnsiðir hafa hér eitthvað að segja en fyrst og fremst bera oddvitar stjórnarflokkanna, helstu fagráðherrar og ráðuneytisstjórar mesta ábyrgð á því hvernig haldið var á málum í stjórnkerfinu.

Athygli vekur að þeir einstaklingar sem rannsóknarnefnd Alþingis sendi bréf þar sem þeim var gefinn kostur á að skila inn athugasemdum sínum um hvort viðkomandi hefði sýnt vanrækslu eða gert mistök í skilningi laga nr. 142/2008 lýstu allir því viðhorfi sínu að ekki hefði verið um mistök eða vanrækslu að ræða í skilningi þeirra laga. Vísað var á ábyrgð annarra stofnana, ráðherra eða embættismanna sem hefðu átt að fara með tiltekið verkefni, sinna eftirliti eða viðfangsefninu af hálfu ríkisins.

Þingmannanefndin telur gagnrýnivert að samráðshópur forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands hafi ekki byggt starf sitt á þeim upplýsingum, greiningum og fagþekkingu sem þó lágu fyrir í aðdraganda bankahrunsins. Ljóst er að skort hefur á skýra verkaskiptingu og ábyrgð á framkvæmd verkefna. Miðlun upplýsinga til ráðherra hefur ekki verið í föstum skorðum og viðkomandi ráðherrar hafa ekki tekið afgerandi á viðfangsefnum hópsins.

Grunnur fulltrúalýðræðis verður að vera trúnaður, traust, gagnsæi og heiðarleiki því að grunsemdin ein er næg til þess að trúnaðarbrestur verði. Því verða stjórnmálamenn ætíð að haga orðum sínum og athöfnum út frá trúnaðarskyldum sínum við land og þjóð. Hagsmuni almennings verður ávallt að hafa að leiðarljósi. Það sem viðgengist hefur í tengslum við styrki til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna er einn þáttur í þeim trúnaðarbresti sem varð. Svo stjórnmálamenn megi öðlast traust þjóðarinnar að nýju er brýnt að skýrar reglur verði settar um styrki og fjármögnun stjórnmálaflokka og að gagnsæi ríki.

Þingmannanefndin telur rétt að alþingismenn setji sér siðareglur og vinni að því að endurheimta traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum. Styrkur lýðræðisins veltur á því að grundvallarinnviðir lýðræðislegs samfélags séu traustir svo almenningur geti reitt sig á að mál séu faglega unnin, ákvarðanir vel ígrundaðar og öll meðferð almannavaldsins hófsamleg og sanngjörn.

Mikilvægt er að tryggja sjálfstæði háskólanna gagnvart fjárhagslegum hagsmunum. Fjárhagsleg tengsl íslenskra háskóla og stóru bankanna á árunum 2003–2008 voru til staðar og fengu háskólarnir umtalsverða styrki frá bönkunum. Þingmannanefndin telur að fræðasamfélagið verði að taka alvarlega þá gagnrýni sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Endurskoða þarf ákvæði laga um háskóla, nr. 63/2006, og laga um opinbera háskóla, nr. 85/2008, einkum með tilliti til fjárhags háskólanna og stöðu og hlutverks starfsmanna þeirra í þeim tilgangi að tryggja betur frelsi háskólasamfélagsins og fræðilega hlutlægni. Hvetja þarf háskólamenn af ólíkum fræðasviðum til að taka þátt í opinberri umræðu og styrkja með þeim hætti tengsl fræðasamfélagsins, atvinnulífsins og hins almenna borgara.

Nauðsynlegt er að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta og umræðu um gildi siðareglna. Siðfræði og heimspeki ættu að vera sjálfsagður hlutur í námi á öllum skólastigum, sem og gagnrýnin hugsun, rökræður og fjölmiðlalæsi. Í því skyni þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð.

Þáttur fjölmiðla í aðdraganda hrunsins sýnir að þeir hafa ekki sýnt nægilegt sjálfstæði og ekki verið vakandi yfir þeim hættumerkjum sem hrönnuðust upp. Sjálfsritskoðun virðist hafa verið útbreidd og áttu fjölmiðlar stóran þátt í því hve mikil og lofsamleg umræðan var um fjármálafyrirtækin. Lítil viðleitni var af hálfu fjölmiðla til að greina gagnrýni erlendra matsfyrirtækja og greiningaraðila af sjálfstæði. Ímyndarsköpun og spuni einkenndu upplýsingagjöf bankanna. Fjölmiðlum reyndist oft erfitt að afla upplýsinga og jarðvegur fyrir gagnrýna umfjöllun um fjármálakerfið var ekki frjór.

Þingmannanefndin telur að fjölmiðlar leiki lykilhlutverk í lýðræðissamfélagi með því að upplýsa almenning, vera vettvangur gagnrýninnar þjóðfélagsumræðu og veita nauðsynlegt aðhald. Þingmannanefndin telur því mikilvægt að fjölmiðlar haldi í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram alvarleg gagnrýni á að íslenskir fjölmiðlar hafi ekki náð að rækja þetta hlutverk sitt í aðdraganda bankahrunsins. Þingmannanefndin telur ábyrgð fjölmiðla sem fjórða valdsins mikla og að þar vegi ábyrgð Ríkisútvarpsins þyngst. Mikilvægt er að búa svo um hnútana að Ríkisútvarpið geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu sem öflugur fréttamiðill og vettvangur fræðslu, menningar og skoðanaskipta. Þá verður að gera þá kröfu á hendur Ríkisútvarpinu að það beiti sér öðrum fremur fyrir vandaðri rannsóknarblaðamennsku. Nefndin bendir á að fram hefur farið endurskoðun á lögum um fjölmiðla en telur engu að síður brýnt að byggt sé á ályktunum og niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Einnig er rétt að minna á ábyrgð almennings, hún er mikil og því verða borgarar að huga að því að því fylgja bæði réttindi og skyldur að vera borgari.

Hér hef ég stiklað á stóru í þeim hluta skýrslunnar sem fjallar um siðferði og samfélag. Hann kemur í raun inn á alla þætti skýrslunnar með einhverjum hætti. Þingmannanefndin lét vinna skýrslu um kynjafræðilega greiningu á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem er fylgiskjal II með skýrslunni. Samfélagsleg umgjörð í aðdraganda bankahrunsins var þannig skoðuð út frá sjónarhorni kynjafræðinnar, svo sem efnahagsstjórn, atvinnustefna og skattstefna. Einnig eru skoðaðar mikilvægar ákvarðanir, m.a. um einkavæðingu bankanna. Jafnframt er fjallað um atburði og sjónarmið út frá hugtökum kynjafræði og sýnt fram á hvernig hugtökin einstaklingur, frelsi og þjóðerni tengjast hugtökunum kyngervi, karlmennska og kvenleiki. Þá er fjallað um stigveldi karlmennskunnar og hvernig hugarfar, ákvarðanataka og hugmyndir um hæfni taka mið af karllægum sjónarmiðum.

Þingmannanefndin telur greinargerðina mikilvægt framlag til jafnréttisumræðu á Íslandi.

Þingmannanefndin hefur lagt það til grundvallar í vinnu sinni að draga lærdóm af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og bendir á leiðir til úrbóta. Nú reynir á hlutverk Alþingis að hrinda í framkvæmd og taka til greina þær ályktanir og tillögur sem koma fram í þingsályktunartillögu um viðbrögð Alþingis við skýrslunni. Við getum ekki horft til framtíðar nema gera upp fortíðina og efnahagshrunið og draga lærdóm af þeirri græðgi, spillingu, ógagnsæi og agaleysi sem einkenndi aðdraganda hrunsins.

Þingmannanefndin hefur leitast við að skila vandaðri vinnu sem vonandi verður liður í því uppgjöri sem fram þarf að fara milli þings og þjóðar og getur orðið þáttur í að byggja upp gagnkvæmt traust að nýju og verða vegvísir til framtíðar.