138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið.

Varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns um það hvað við eigum að gera með þetta plagg, hvort við munum fylgja því eftir eða hvort þetta verði eitthvað sem ekki verði gert meira með. Ég tel það fyrst og fremst undir okkur þingmönnum sjálfum komið eins og allt annað. Einhvers staðar segir í auglýsingu „ekki gera ekki neitt“. Ég held að í þessu sambandi verðum við að líta á þetta sem tækifæri og tímamót til að gera breytingar en auðvitað fer það alltaf eftir þingmönnum sjálfum hversu fylgnir sér þeir eru við að halda á lofti þeim þörfu og brýnu málum sem koma fram í þingsályktunartillögunni. Ég held að myndast hafi svo góð samstaða í þingmannanefndinni að í öllum þingflokkum verði gert allt sem hægt er til að halda þessu á lofti og líka að sett verði á laggirnar nefnd sem fylgi því eftir að þessu verði hrint í framkvæmd og sett tímamörk. Ég hef bara þá trú að við munum hafa dugnað til að fylgja því eftir sem þarna er bent á og treysti því.

Varðandi útfærslur á reglugerðum og öðru því um líku og hvort hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi gert þingflokknum grein fyrir þeim málum, þá tel ég að það sé efni fyrir aðra umræðu og ætla ekki að fara út í þá sálma við þessa umræðu. Ég er bara ekki með svör við því á takteinum og mun ekki ræða það í þessu andsvari mínu.