138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[17:39]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Leikreglur hljóta að byggjast á lögum og reglum. Þar sem ég þekki til á dálítið öðru sviði, í handbolta og knattspyrnu, eru leikreglurnar skráðar. Brjóti menn og konur skráðar reglur og stundum óskráðar fá þau gult eða rautt spjald og sum eru rekin af velli. Á sama hátt, eins og ég sagði áðan, hefði Alþingi Íslendinga átt að skoða lög um fjármálamarkaði og taka til þar. Okkar er að setja lögin og ef um ráðherra er að ræða, að semja á stundum reglugerðir sem markaðurinn og aðrir eiga að fara eftir. Þetta verður aldrei frá Alþingi tekið.

Ég er sammála hv. þingmanni Álfheiði Ingadóttur að þeir sem spiluðu á leikvelli markaðarins hefðu fyrir lifandis löngu átt að vera búnir að fá gult og rautt spjald. Þeirra er ábyrgðin mest og vonandi sjáum við einhvern tíma að þeir þurfi að sæta ábyrgð.