138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort við höfum ekki rætt framvirka samninga, að bindiskylda væri lág og hlutabréfaformið, um Icesave og ábyrgð matsfyrirtækja. Jú, ég get staðfest að við ræddum þetta allt saman. Ísland er að vísu eyja þótt við séum kannski ekki eyland í þeirri merkingu sem hv. þingmaður lagði í það orð. Við fórum yfir þetta allt saman. Þó að bindiskyldan sé regla í Evrópusambandinu bar okkur ekki skylda til að taka hana upp — en það var gert. Ábyrgð matsfyrirtækjanna er mikil og allt er þetta sambland af því sem gerist hér heima og því sem gerist í útlöndum, eftirlitsleysi, stjórnvöld, að við litum á fjármálakerfið sem vaxandi atvinnugrein sem skilaði miklu til þjóðarinnar og héldi uppi velferð og skilaði ef ég man rétt jafnmiklu og það kostaði að reka háskólakerfið allt saman. Þetta er sambland af þessu öllu og yfir þetta fórum við margsinnis og síðan yfir niðurstöður okkar í skýrslunni.