138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:31]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir alþingismenn færa þeim sem skipuðu þingmannanefnd um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis svo og starfsfólki þeirra bestu þakkir fyrir mjög gott starf undanfarna mánuði, mikið og gott starf.

Samkvæmt lögum um rannsókn bankahrunsins var Alþingi ætlað að fjalla um niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis um málið. Þar sem í núgildandi skipulagi þingsins er engri fastanefnd Alþingis falið að annast mál er tengjast eftirlitshlutverki þingsins þurfti að sérsníða þá málsmeðferð sem skýrslan fékk. Ég tel að það vinnulag sem forsætisnefnd mótaði fyrir þingmannanefndina í janúar sl. hafi tekist vel og það sé líklegt til að verða fyrirmynd að störfum þeirrar eftirlitsnefndar sem vilji stendur til að koma á fót innan þingsins og tillögur eru um í frumvarpi því sem liggur fyrir Alþingi í mínu nafni sem forseta þingsins. Það var lagt fram til kynningar í vor og ég vonast til að forsætisnefnd flytji það að nýju á næsta þingi.

Í þeirri umfjöllun sem orðið hefur um Alþingi í tengslum við bankahrunið hefur þingið ekki síst verið gagnrýnt fyrir að hafa brugðist í eftirlitshlutverki sínu. Sú staðreynd minnir okkur á að Alþingi er ekki eingöngu löggjafarstofnun heldur gegnir það margþættu hlutverki í stjórnkerfi okkar. Vissulega má gagnrýna Alþingi fyrir að hafa ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu nægilega vel. Fyrir því eru margvíslegar ástæður. Þar á meðal má nefna það lagaumhverfi sem þingið hefur búið við í þessum efnum. Ég tel hins vegar að á því sviði sé Alþingi nú vel í stakk búið til að gera með skjótum hætti bragarbót á. Ástæðan er ekki síst sú að nokkru áður en til bankahrunsins kom hafði forsætisnefnd Alþingis skipað vinnuhóp til að endurskoða lagareglur um þingeftirlit og gera tillögur um hvernig styrkja mætti eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Vinnuhópurinn skilaði skýrslu sinni fyrir ári síðan, í september 2009, og þar er birt ítarleg greining á eftirlitshlutverki Alþingis. Í skýrslu vinnuhópsins eru settar fram skýrar ábendingar um hvernig efla megi möguleika Alþingis til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Þar er að finna á þriðja tug tillagna um ýmis atriði sem hópurinn leggur til að ráðist verði í að endurskoða og bæta. Þingmenn hafa allir fengið skýrsluna um eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu.

Eftir að forsætisnefnd hafði fjallað um tillögur vinnuhópsins gekk nefndin frá aðgerðaáætlun í tíu liðum í því skyni að hrinda tillögunum í framkvæmd. Vinnu við þau atriði sem nefnd eru í aðgerðaáætlun forsætisnefndar er ýmist lokið eða þau eru í lokavinnslu. Eina atriðið sem út af stendur lýtur að endurskoðun laga um ráðherraábyrgð og landsdóm, enda er þar um að ræða þátt sem er í eðli sínu mjög viðkvæmur eftir að niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis lágu fyrir og því voru ekki forsendur til að hefja strax endurskoðun á þeim þætti.

Með því frumvarpi til breytinga á þingsköpum sem forseti Alþingis lagði fram í júní sl. má segja að brugðist hafi verið við megintillögum vinnuhópsins um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Í frumvarpinu er m.a. gert ráð fyrir breytingum á nefndaskipan og eflingu eftirlitshlutverks Alþingis. Samkvæmt tillögunum er m.a. kveðið á um stofnun sérstakrar eftirlitsnefndar sem nefnd er í frumvarpinu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og sett ákvæði um upplýsingaskyldu ráðherra og stöðu stjórnarandstöðunnar þar sem lagt er til að hún verði bætt með því að hún fái formennsku í fastanefndum í hlutfalli við þingstyrk sinn. Góð samstaða er í forsætisnefnd um meginefni frumvarpsins.

Þá liggur nú fyrir frumvarp um opinberar rannsóknarnefndir sem forsætisnefnd lét semja í samræmi við tillögur áðurgreinds vinnuhóps. Um lagafrumvarpið er einnig mjög góð samstaða í forsætisnefnd og hefur það nú verið sent formönnum þingflokka til skoðunar og er til yfirferðar hjá þingflokkunum. Vilji forsætisnefndar er að það frumvarp verði lagt fram á Alþingi á næstkomandi þingi.

Það er mikill samhljómur í þeirri aðgerðaáætlun sem forsætisnefnd mótaði í framhaldi af skýrslu vinnuhópsins um þingeftirlit og þeim tillögum sem þingmannanefndin leggur fram í skýrslu sinni og varða þingið og eftirlitshlutverk þess, enda lít ég svo á að tillögum þingmannanefndarinnar í þessum efnum sé ekki síst ætlað að vera stuðningur við þær aðgerðir sem þegar eru komnar í ákveðin farveg innan þingsins. Ég tek heils hugar undir þann boðskap sem felst í skýrslu þingmannanefndarinnar, að tímabært sé að huga að stöðu Alþingis í stjórnskipan okkar með það að markmiði að sjálfstæði þjóðþingsins verði styrkt. Í dag er kallað eftir því að slík breyting á stöðu þingsins birtist með sýnilegum hætti í störfum og starfsháttum Alþingis. Veigamikill þáttur í því er að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði þingsins þannig að það geti sinnt hlutverki sínu með sóma. Það er því eðlilegt að framlög til Alþingis á fjárlögum byggist á samkomulagi milli þingflokkanna og fjárlaganefndar þingsins en séu ekki háð ákvörðunarvaldi ríkisstjórnar hverju sinni.

Í ljósi þeirra góðu viðbragða sem skýrsla þingmannanefndarinnar hefur hlotið í umræðum á Alþingi treysti ég því að alþingismenn veiti þeim tillögum brautargengi sem forsætisnefnd og þingmannanefndin hafa borið fram. Ég heiti á alþingismenn að sameinast um að ljúka þessari umbótavinnu fyrir lok næsta þings.