138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:46]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil ekki láta hjá líða frekar en aðrir að byrja á því í þessari umræðu að færa þingmannanefndinni, sem hér hefur verið að skila af sér ítarlegri skýrslu um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, bestu þakkir fyrir vel unnin störf og styrka forustu í því starfi. Það er augljóst hverjum sem fer í gegnum þau skjöl sem frá nefndinni koma að það er ómæld vinna og hugsun á bak við niðurstöðu nefndarinnar, bæði þá sem full samstaða er um og einnig í þeim efnum þar sem nefndarmenn skiptust í fleiri horn. Það er mikilvægt í mínum huga að niðurstöðurnar fái rúma umræðu á vettvangi Alþingis, einnig í fjölmiðlum og úti í samfélaginu almennt.

Það má kannski líta svo á að þessi skýrsla sé eins konar sálarspegill á íslenskt samfélag í aðdraganda hrunsins og nokkur ár þar á undan. Þar er að finna þýðingarmikla gagnrýni á grundvallarþætti í íslenskri samfélagsbyggingu, á stjórnmálin, á stjórnsýsluna, eftirlitsstofnanir, fjármálafyrirtæki, fjölmiðla og fræðasamfélag. En um leið er þar að finna gagnrýni á hugarfar, viðhorf og sjálfsmynd þjóðarinnar eins og glöggt kemur fram í umfjöllun um siðferði og samfélag.

Ég ætla að tæpa á nokkrum atriðum sem koma fram í skýrslu nefndarinnar og er að finna í tillögu hennar og þá er ég að vísa til þingsályktunartillögunnar sem fylgir þessari skýrslu. Þar er m.a. fjallað um Alþingi. Talað er um hlutverk Alþingis, að mikilvægt sé að binda það í stjórnarskrá frekar en gert er nú þegar og að Alþingi setji sér siðareglur. Þetta tel ég að sé vel rökstutt af hálfu nefndarinnar. Það er mikilvægt að það sé skýrt í stjórnskipun okkar, í grundvallarlöggjöf okkar, hvert hlutverk Alþingis raunverulega er þó að sjálfsögðu sé vikið að hlutverki Alþingis og stöðu í núgildandi stjórnarskrá, fjallað um þrískiptingu ríkisvaldsins og þess háttar. Ég tel einnig rétt að alþingismenn setji siðareglur fyrir sjálfa sig. Það er stundum sagt í þessari umræðu að það sé óþarfi að vera með skrifaðar reglur í þessu efni. Það sé siðferðið sjálft sem skiptir mestu máli og hinar óskrifuðu reglur. En það er einfaldlega þannig að viðmiðin geta bæði verið skrifaðar reglur og óskrifuð viðmið og hvort tveggja þurfa alþingismenn að hafa í huga í störfum sínum.

Hér er talað um að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis, rétt til upplýsinga, stöðu stjórnarandstöðunnar, sem hér hefur aðeins verið drepið á, aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds í verki. Í umræðunni um stöðu Alþingis og mikilvægi þess að auka sjálfstæði þingsins vil ég segja að ég tel að þetta séu réttar ábendingar sem við eigum að taka alvarlega. En um leið get ég tekið undir þau viðhorf, sem hér hefur verið hreyft í umræðunni, að Alþingi er sú stofnun sem hefur æðsta valdið í sínum höndum. Við búum við þingræðisskipulag þannig að ef menn eru að velta því fyrir sér að hverfa frá því og greina að fullu og öllu á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, svipað og fyrirkomulagið er til að mynda í Bandaríkjunum, þá er það mjög viðamikil spurning, viðamikið álitaefni og viðamikil breyting sem í því fælist í grundvallarstjórnarháttum okkar sem þarf að taka til mjög gaumgæfilegrar athugunar og verður ekki hlaupið að, heldur þarf að skoða alla kosti og galla þess ofan í kjölinn og um það þarf að fara fram umræða í samfélaginu. En enginn vafi er á því í mínum huga að við þurfum að styrkja störfin á Alþingi, löggjafarsamkomuna. Og hvað fjárstjórnarvaldið varðar, sem einnig hefur verið nefnt, er það auðvitað þannig að fjárveitingavald ríkisins er á Alþingi. Jafnvel þó að við fáum inn á okkar borð fjárlagafrumvarp sem þingmenn eru kannski ekki ánægðir með þá er það tillaga að fjárlögum og þingið sjálft getur gert á því þær breytingar sem það kýs, m.a. að því er varðar hlut Alþingis sjálfs í því efni. Við skulum því ekki heldur gera lítið úr því að við höfum, alþingismenn, það umboð sem felst í því að fara með fjárveitingavaldið.

Í skýrslu nefndarinnar er talað um endurskoðun á nefndakerfi Alþingis og starfsháttum. Ég vil leyfa mér að taka undir þær ábendingar sem þar koma fram og fagna þeim hugmyndum sem hafa verið settar fram í frumvarpsformi af hálfu hæstv. forseta Alþingis og ég veit að við munum fjalla um næsta vetur. Það eru margar góðar hugmyndir þar. Fleiri kunna að vera á sveimi og koma fram í þeirri umræðu og það er sjálfsagt að taka góðan tíma í slíkt.

Ég ætla líka að nefna EES-málið, sem hefur borið á góma í þessari umræðu, bæði í dag og í gær og ábendingar frá nefndinni um að þar þurfi að vanda meira til verka. Ég er líka sammála því og hef reyndar átt þátt í því á vettvangi utanríkismálanefndar að fjalla um nýjar reglur um þinglega meðferð EES-mála sem forsætisnefnd samþykkti á fundi sínum í ágúst og munu taka gildi 1. október. Ég vænti þess að þar sé búið að setja þau mál í vandaðri búning og þær reglur sem koma frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn, aðild okkar að honum, og við þurfum að leiða í lög, fái þá betri umfjöllun á vettvangi Alþingis. Í öllu falli vænti ég þess að reyna muni á þessar nýju reglur núna strax á næsta þingi og gert er ráð fyrir því í þeim reglum að þær verði endurskoðaðar að ári liðnu í ljósi reynslunnar.

Mér finnst mikilvægt að nefna ábendingar nefndarinnar um að koma á laggirnar sérstakri stofnun í anda þeirrar stofnunar sem Þjóðhagsstofnun var. Ég tel að það sé líka mikilvægt. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir þingið að hafa beint undir sinni stjórn einhvers konar sérfræðiþekkingu og sérfræðiþjónustu á þessu sviði, stofnun sem á að vera hlutlaus en gefa ábyggilegar og vandaðar álitsgerðir og umfjöllun um efnahagsmál almennt, greinargerð um þróun efnahagsmála o.s.frv. þannig að Alþingi sé betur í stakk búið til að takast á við þau viðfangsefni sem bíða hverju sinni á því sviði.

Hér hefur nokkur umræða orðið um tillögu nefndarinnar þar sem gert er ráð fyrir í þingsályktunartillögunni að endurskoða eigi löggjöf um ráðherraábyrgð og lög um landsdóm. Ég ætla ekki að fara í umfjöllun hér um þær þingsályktunartillögur sem fylgja frá meiri hluta og minni hluta nefndarinnar, það bíður annars tíma. En ég verð að segja að mér þykja margar yfirlýsingar ýmissa sérfræðinga í þessu efni í fjölmiðlum nú síðustu sólarhringa óvarlegar. Þetta er mjög vandmeðfarið mál. Ég vil líka segja að þegar var verið að setja á laggirnar þingmannanefndina og í tengslum við skýrslu rannsóknarnefndarinnar eða þá vinnu alla var það mál reifað aðeins a.m.k. á milli þingmanna hvort rétt væri að gera breytingar strax á lögum um landsdóm og lögum um ráðherraábyrgð. Þá var það viðhorf flestra sem ég man eftir að hafi tjáð sig um það mál að það væri ekki hægt að gera það í miðjum klíðum ef svo má segja. Það yrði þá að vera seinni tíma mál. Margir þeirra koma nú og segja: Þetta eru handónýt lög og það er ekki hægt að notast við þau. Það finnst mér skjóta dálítið skökku við satt að segja.

Ég vil líka benda á að fyrr á þessu þingi, 138. löggjafarþingi, svaraði hæstv. forseti Alþingis skriflegri fyrirspurn frá hv. þm. Arndísi Soffíu Sigurðardóttur þar sem hún spurðist m.a. fyrir um viðhorf forseta til landsdóms og laganna um ráðherraábyrgð og hvort tilefni væri til að gera á þeim breytingar. Ég hvet þingmenn til að kynna sér það svar því að það er ýmislegt fróðlegt sem kemur fram í því sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér, ekki í umfjöllun um þetta mál. En það eru áhugaverð atriði þar og m.a. er vikið að því álitamáli sem hefur komið upp og varðar mannréttindavinkilinn á þeirri málsmeðferð sem fyrirskipuð er í gildandi lögum, og ég fæ ekki betur séð en forseti, í skriflegu svari sínu, rökstyðji það að mannréttindamálunum sé vel fyrir komið með því fyrirkomulagi sem er í gildi.

Kannski aðeins um fjármálafyrirtækin. Það er alveg ljóst í niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar og í niðurstöðu þingmannanefndarinnar að stjórnendur og eigendur fjármálafyrirtækjanna eru taldir bera mesta ábyrgð á því hruni sem hér varð. Um það held ég að allir geti verið sammála eftir þær ítarlegu skoðanir og rannsóknir sem fram hafa farið um það mál og það er undirstrikað alveg sérstaklega í tillögu til þingsályktunar frá allri nefndinni að það séu stjórnendur og helstu eigendur fjármálafyrirtækja sem beri mesta ábyrgð á bankahruninu.

Í skýrslu nefndarinnar er fjallað um, og tiltekið sérstaklega, vanvirðingu við lög og rétt af hálfu fjármálafyrirtækja. Þetta eru vissulega þung orð en segja má að reynsluleysi og ábyrgðarleysi hafi einkennt um of starfsemi fjármálafyrirtækja, þar hafi ákveðin múgsefjun verið í gangi, ákveðin hjarðhegðun og hún hafi náð inn í eftirlitsstofnanirnar líka sem fá harða gagnrýni fyrir sinn hlut í aðdraganda bankahrunsins. Ég á, ég má — það var frasi sem við heyrðum oft í þessari umræðu. Það var það sem sveif yfir vötnum hjá þessum eigendum stórra fjármálafyrirtækja, að vegna þess að þeir ættu hlutabréf og kannski ráðandi hlut í tilteknum fjármálafyrirtækjum mættu þeir hegða sér eins og þeir vildu og gera það sem þeir vildu, jafnvel þó að þeir væru að véla um stórar fjárhæðir sem annað fólk átti og tapaði í hruninu.

Það er bersýnilegt að við þurfum að fara rækilega yfir lög er varða fjármálafyrirtæki, líka þær breytingar sem við vorum að gera nýlega fyrr á þessu þingi um starfsemi fjármálafyrirtækja. Það þarf að koma í veg fyrir samþjöppun, það þarf að koma í veg fyrir eigin fjárfestingar stjórnvalda og við þurfum að ræða það sem nefndin álítur að vera eigi viðfangsefni í næstu skoðun, þ.e. að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Eftirlitsaðilarnir brugðust sömuleiðis og sumir telja að engu líkara sé en þeir hafi verið í vinnu hjá fjármálastofnunum en ekki hjá almenningi. Það hafi verið viðhorf þeirra að þeir hafi átt að styðja við íslensku útrásina. Þetta er talandi dæmi um það sem hefur verið kallað múgsefjun eða hjarðhegðun í þessu efni, og hún var alvarleg. En það eru ekki bara opinberar eftirlitsstofnanir. Ég vil gera hlut endurskoðenda að umtalsefni því það er mikið umhugsunarefni og eiginlega ótrúlegt að endurskoðendur sjálfir hafi ekki séð neina ástæðu, að því er séð verður, að skoða eigin verk og ábyrgð í hruninu. Hér þarf augljóslega að fara í saumana á hlutverki og ábyrgð endurskoðenda eins og það er í lögum í dag og gera bragarbót á þó að þessir þættir hafi raunar verið til umfjöllunar á þinginu í vor á vettvangi viðskiptanefndar.

Ýmsar úrbætur sem nefndin lagði til mættu andstöðu endurskoðenda en skýrsla þingmannanefndarinnar er í senn gagnrýni á störf þeirra og áskorun um að taka sér tak og rýna í sín eigin verk í þeim tilgangi að betrumbæta. Ég tek heils hugar undir tillögur um stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka og Fjármálaeftirliti og nauðsyn þess að ræða hvort sameina eigi þessar stofnanir. Það geta auðvitað verið ólík rök. Það geta verið rök fyrir því að sameina, það geta líka verið rök til hins gagnstæða en þetta þarfnast vandlegrar umræðu og við þurfum að reyna að greina kosti og galla hvors um sig.

Í umfjöllun sinni um stjórnsýsluna er ekki hvað síst gagnrýndur skortur á formfestu, ógagnsæi, því sem kallað er oddvitaræði í íslenskum stjórnmálum, að ríkisstjórnin hafi verið sniðgengin í mikilvægum málum, ríkisstjórnin sem heild og ráðherraábyrgðakeðjan rofin. Stjórnsýslan var veikburða. Kraftarnir voru of dreifðir í litlum veikburða stofnunum og ráðuneytum. Hér er líka mikilvægt atriði sem við verðum að hafa í huga þegar við ræðum um stöðu Alþingis og að Alþingi sé veikt gagnvart framkvæmdarvaldinu því að það er satt sem sagt er að framkvæmdarvald á Íslandi er líka veikt. Það kom auðvitað berlega í ljós í þessu hruni að framkvæmdarvaldið er líka veikt og það þarf að styrkja á sinn hátt.

Í ráðuneytinu fer fram bæði pólitísk og embættisleg eða fagleg vinna. Við þurfum að viðurkenna það að ráðuneytin þurfa að vinna á báðum þessum sviðum og hvort um sig þarf að vera vel búið mannauði, þekkingu og hæfni. Um þetta er m.a. fjallað í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og ég tek undir það. Síðan er sérstök úttekt rannsóknarnefndar Alþingis á siðferðilegum álitamálum mikilvægt innlegg í umræðuna til uppbyggingar og lærdóms. Þar er fjallað um stjórnmálin, forsetaembættið, viðskiptalíf, stjórnsýslu, fjölmiðla, fræðasamfélag og siðmenningu. Hagsmunir almennings eiga ávallt að vera hafðir að leiðarljósi. Í skýrslunni segir: „Ábyrgð almennings er líka rík og því að vera borgari fylgja ekki einungis réttindi heldur einnig skyldur.“ Þetta er líka rétt. Við þurfum öll sem einstaklingar og þjóð að horfa í okkar eigið sjálf og velta því fyrir okkur hvað við getum gert til að bæta samfélag okkar, vinnulag og umhverfi, bæta starfshætti, auka gagnsæi, lýðræði og heiðarleika í okkar samfélagi.

Skýrsla þingmannanefndarinnar er mikilvægt framlag fyrir okkur sem þjóð til að vinna okkur úr þessum vanda og því áfalli sem við urðum sannarlega fyrir haustið 2008. Það leggja margir áherslu á að við eigum að horfa fram á veg en ekki vera í baksýnisspeglinum. En það eru gömul sannindi og ný að að fortíð skal hyggja ef framtíð skal byggja. Við verðum að skilja til hlítar hvað fór aflaga og hvers vegna til að geta dregið af því réttan lærdóm og reynslan á að vera okkur veganesti inn í framtíðina, framtíð sem er björt vegna þess að Íslendingar eru dugmikil þjóð sem býr við góðan kost í samanburði við það sem víða gerist í veröldinni og því eigum við ekki að gleyma.

Skyldur okkar alþingismanna í þessu efni eins og öllum öðrum eru fyrst og fremst við þjóðina, að rækta almannahagsmuni, að hlúa að blómum réttlætis og jafnaðar.