138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:40]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir spurningar hans.

Varðandi fyrri spurninguna tel ég að sú hugmynd að þingnefndir samþykki stjórnarfrumvörp áður en þau koma til umfjöllunar vera allra góðra gjalda verð. Ef hún felur í sér að frumvörpin verði betri og vandað verði til frumvarpsgerðarinnar á upphafsstigi hennar þá mun ég styðja það.

Ég hef reyndar sagt í þessum efnum að ég vilji að ráðherrar sitji ekki á Alþingi. Ég segi það fyrst og fremst vegna þess að — við getum tekið Rögnu Árnadóttur sem dæmi — þá eru engin flokkspólitísk tengsl, t.d. við nefndarmann eða formann nefndar sem þarf að hafa í huga, og ég veit að margir víla það fyrir sér í umræðunni vegna þess að það er erfitt að fara gegn frumvarpi sem flokkssystir eða -bróðir hefur lagt fram sem ráðherra. Þess vegna segi ég: Allt sem styrkir aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds mun ég styðja.

Varðandi seinni spurninguna — (Gripið fram í: Um málþóf.) Um málþóf hef ég sagt að við eigum ekki að vera feimin við það að menn tali hér lengi. Á árum áður viðgekkst málþóf í ríkum mæli og margir segja að það sé algjörlega úrelt fyrirbæri. En við verðum að horfast í augu við það að þeir sem ráða nú ríkjum voru hvað fremstir í því að notfæra sér þann rétt stjórnarandstöðunnar að koma í veg fyrir mjög umdeild mál. Stjórnvöld eða þeir sem ráða ríkjum geta þá alltaf setið og beðið. Við vitum að mönnum verður stundum mál og þurfa að yfirgefa ræðupúltið og fyrir rest lýkur nú öllum umræðum.