138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[17:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég vil, eins og margir aðrir þingmenn, ef ekki allir, þakka þingmannanefndinni fyrir mjög góð störf og mjög athyglisverðar og vandaðar niðurstöður. Það er greinilegt að mjög hefur verið vandað til verka í þessari vinnu. Það eru afar yfirgripsmiklar tillögur sem þingmannanefndin gerir um alls konar úrbætur á samfélaginu. Ef við ráðumst í það allt, sem ég geri ráð fyrir að við ætlum að gera, er ekkert hægt að lýsa því öðruvísi en að um verði að ræða algjöra gjörbyltingu á stjórnkerfinu, fjármálakerfinu og öllum grundvallarumbúnaði íslensks samfélags. Þarna eru stórar spurningar sem blasa við, við ætlum að fara í ansi stór viðfangsefni, eins og t.d. það að þingmannanefndin leggur til að við förum í þá vinnu að ákveða hvernig fjármálakerfi hentar íslensku samfélagi. Það er ævintýralega stór spurning en það er auðvitað spurningin sem blasir við eftir ófarir síðustu ára að við þurfum að glíma við. Það er ekkert einfalt.

Ég ætla að taka ákveðinn vinkil á umræðuna sem mér heyrist ekki margir hafa tekið. Við höfum talað dálítið mikið um fortíðina og hvernig við ætlum að gera hana upp og svo tölum við um að við ætlum að gera ákveðna hluti í framtíðinni. Þeir hafa verið ansi magnaðir, þeir hlutir sem við ætlum að gera í framtíðinni, eins og að endurskipuleggja fjármálakerfið og svoleiðis, en mig langar í þessari ræðu að velta því upp hvað við getum gert hér og nú. Við þurfum líka að glíma við nútíðina, samtímann, og spyrja okkur að kvöldi dags: Hvað getum við gert á morgun, þá þegar, til að bæta ástandið? Hvað er hægt að gera?

Það er alveg kristaltært í mínum huga að orsakir ófaranna, orsakir fjármálahrunsins, eru mjög margslungnar. Ég held að á löngum tíma hafi verið teknar margar rangar ákvarðanir sem leiddu til þess að til varð helsjúkt kerfi sem var síðan eiginlega dauðadæmt. Við sáum það líka, a.m.k. fannst mér ég sjá það ansi skýrt, að samfélagið var ansi sjúkt í aðdraganda hrunsins. Gagnrýni var illa séð, gagnrýnin hugsun var almennt illa séð. Það ríkti tortryggni í samfélaginu. Háskólamenn voru tortryggðir og sagðir tala út af annarlegum hvötum eða annarlegum hagsmunum jafnvel. Fjölmiðlamenn voru sagðir leigupennar af minnsta tilefni. Stjórnmálamenn nutu ekki mikillar virðingar þá frekar en nú. Einhvern veginn voru allar mikilvægar stéttir sem eiga að halda uppi gagnrýninni umræðu talaðar niður. Það var ekki gert með neinum reglugerðum, ekki neinum lagasetningum þannig séð, þetta var einfaldlega hegðun. Og hún náði nokkrum sinnum hámarki, það varð til einhvers konar skrímsli í samfélaginu sem hét flokksræði sem við köllum nú líka oddvitaræði, og sú blanda af gagnrýnisleysi og flokksræði leiddi t.d. til þess að Íslendingar tóku þátt í árásarstríði án þess að vera spurðir, án þess að það væri einu sinni rætt í ríkisstjórn. Það var ákveðin birtingarmynd þessa fáránlega sjúka samfélags sem við bjuggum í. Þessir trosnuðu innviðir, þetta helsjúka samfélag var ekki hæft til þess að takast á við meingallað fjármálakerfi sem síðan hrundi. Það þurfti að breyta of miklu. En þetta allt saman, hvernig við högum okkur, hvernig við tölum til annarra, hvort við leyfum gagnrýni, hvort við ákveðum að tortryggja ekki fólk, hvort við ákveðum að sýna hvert öðru sanngirni, hvort við ákveðum að sýna hvert öðru virðingu hér í þingsalnum eða utan hans, er eitthvað sem við getum ákveðið að gera núna, á morgun, strax í kvöld, strax í fyrramálið. Við þurfum ekki að breyta reglum og í raun og veru komum við ekki upp heilbrigðara samfélagi hvað varðar virðingu, sanngirni, gagnrýna hugsun með reglugerðum. Við gerum það með því að sýna það í verki, ef við sýnum hvert öðru virðingu uppskerum við líka virðingu. Ef við sýnum sanngirni fáum við sanngirni.

Mig langar út frá þessu að tala um þingið, Alþingi, vegna þess að okkur hefur orðið tíðrætt um það. Það er fagnaðarefni að þessi umræða um skýrslu þingmannanefndarinnar hefur orðið einhvers konar naflaskoðun á Alþingi. Þá held ég að það eigi að vera leiðarljós að við spyrjum okkur: Hvað er það sem við getum gert akkúrat núna? Við getum innleitt meiri virðingu í tal okkar, meiri sanngirni, meiri heiðarleika. Það allt getum við gert bara ef við viljum það. Ástæðan fyrir því að ég tala um þetta er líka sú að við megum ekki í þeirri viðleitni okkar til að breyta þinginu, til þess að gera það meira traustvekjandi, reiða okkur um of á niðurstöðu nefnda eða reglugerðarbreytingar eða breytingar á þingsköpum eða yfirlýsingar um að við ætlum að gera eitthvað í framtíðinni. Það er enginn betri tími til breytinga en núna. Um daginn heyrði ég í útvarpinu talað um sálfræðirannsókn sem leiddi í ljós það sem marga sálfræðinga hafði lengi grunað, að það að segjast ætla að gera eitthvað minnkar í raun líkurnar á því að viðkomandi geri það, t.d. þegar menn segjast ætla að hætta að reykja og eru með um það miklar yfirlýsingar er ákveðin tilhneiging í mannssálinni til að líta á yfirlýsinguna sem slíka sem það mikinn áfanga að líkurnar á aðgerðum minnka í raun. Heilinn nemur hrósið sem hann fær við yfirlýsinguna og metur hrósið það mikils að hann telur ekki ástæðu til að fara í raunverulega verkefnið. Stundum finnst mér umræðan um það hvernig við ætlum að bæta þingið, auka hér virðingu, sanngirni, heiðarleika, skapa meira traust, vera þessu marki brennd. Við erum hér í endalausri umræðu um að við ætlum að breyta til batnaðar. Við rífumst jafnvel um það, við rífumst um skort á samstöðu, við rífumst um að ekki hafi verið samráð haft um hlutina. Orðræðan um að viðkomandi ræðumaður segist af fullri einurð og heiðarleika hafa farið fram á samráð en að slegið hafi verið á útrétta hönd, er mjög algeng. Það er sem sagt býsnast yfir skorti á samráði og menn rífast yfir því af hverju það er ekki meira.

Það er eins og sagt var um gamla Alþýðubandalagið, held ég: Það er hver sáttarhöndin upp á móti annarri.

Þetta finnst mér vera því marki brennt að við segjum endalaust að við ætlum að gera eitthvað en við gerum það ekki. Það er enginn tími betri en núna til að skapa meiri virðingu, til að skapa meira traust. Við þurfum bara að byrja á því.

Nú vil ég meta stöðuna aðeins. Ég held því fram að margt hafi þó verið gert. Ég held að margt hafi breyst til batnaðar í þingstörfum, t.d. eru þingmannamál samþykkt í meira mæli en áður. Það er gott að almennir þingmenn finni að það er einhver von til þess í þessu starfsumhverfi að koma málum í gegn. Það eykur sjálfstæða hugsun og það eykur einfaldlega þá tilfinningu meðal þingmanna að þeir séu mögulega að gera eitthvert gagn.

Það er líka ákveðinn vitnisburður um góð störf að við höfum rætt hér í þingsal tvær mjög góðar skýrslur, í því tilviki sem við ræðum núna í dag frá þverpólitískri nefnd þar sem samstarf var mjög gott. Og ég held að margir þingmenn séu sammála um að í nefndum almennt skapast oft mjög gott samstarf. Þetta veit almenningur kannski lítið um, en við höfum margoft orðið vitni að því þegar við þökkum hvert öðru mjög gott samstarf í nefndum.

Ég held að við eigum að læra af þessu, við eigum að læra af því sem þó virkar vel. Kannski ættum við þá að auka þennan þátt í starfi þingsins, einhvers konar hópastarf þar sem við sköpum fleiri farvegi til þess að þingmenn geti unnið saman í hópum, ekki endilega í fastanefndum, heldur líka í starfshópum eða einhverju slíku. Það virðist þó ganga vel.

Það sem gengur hins vegar illa í þessari stofnun er annars vegar að miðla þeirri hlið starfsins til almennings, að hér fari þó fram fagleg umræða sem leiði til einhverrar niðurstöðu, það gengur illa að koma því til skila. Hins vegar held ég að við séum ekki komin langt á veg með að breyta ákveðnum hlut í starfi þingsins sem snýr að áðurnefndu skrímsli, sem er flokksræðið. Ég held að það sé kerfislæg gjá milli þings og þjóðar sem felst í því að allt of oft í þessum sal deilum við á forsendum flokka. Við komum hér upp í nafni ákveðins flokks og segjum að við sem ákveðnir flokksmenn séum á margan hátt betri en einhverjir í öðrum flokki og höfum sagt eitthvað sem fólk í hinum flokknum sagði ekki og svo svarar fólk í hinum flokknum og segir að það sé rangt o.s.frv. Ég segi að þetta endurspegli gjá milli þings og þjóðar vegna þess að umræða af þessu tagi er afskaplega sjaldgæf meðal almennings. Í heita pottinum er t.d. ekki spurt um flokksskírteini, það er afar sjaldgæft, þar hittist fólk bara í sama vatninu og ræðir saman. Á flestum vinnustöðum hefur a.m.k. dregið úr því að fólki sé skipt í hópa og deili á forsendum hópa. Það er lítið spurt um hvaða hópum menn tilheyra. Maður er miklu frekar bara ákveðin manneskja með ákveðna stöðu og hefur sitt innlegg á grundvelli þess sem maður hefur gert og ætlar að gera.

Þess vegna held ég að mjög margir meðal almennings finni sig ekki í þeirri orðræðu sem hér á sér stað. Þeir upplifa þessa tegund orðræðu ekki við eldhúsborðið heima hjá sér, að þar séu menn endalaust að takast á í einhverjum liðum. Ég held að þetta sé spurning um ákveðið sjónarhorn. Ég er ekki á þingi til að vinna fyrir Framsóknarflokkinn, ég er framsóknarmaður á þingi til að vinna fyrir þjóðina. Ég held að flestir þingmenn hafi það sjónarhorn í huga en það virðist oft gleymast. Við birtumst fólki sem fólk á þingi að vinna fyrir flokkana okkar í staðinn fyrir að vera ákveðið flokksfólk á þingi að vinna fyrir þjóðina.

Við getum breytt þessu núna, við getum byrjað að hafa þetta sjónarhorn meira í huga.

Flokkarnir eru mjög mikilvægir, þeir eiga að vera lýðræðislegir farvegir en ég held að það væri mjög slæmt ef við, í allri þeirri endurskoðun sem við ætlum að fara í á nánast öllum þáttum samfélagsins, mundum undanskilja flokkana. Mér finnst athyglisvert að flokkarnir eiga sér engan stað í stjórnarskránni, flokksformenn eiga sér engan stað í stjórnarskránni. Í stjórnarskránni eru bara þingmenn, forseti, ráðherrar. Þingmenn eru kjörnir af fólki, beint, og eiga að fylgja sinni sannfæringu. Stjórnarskráin gengur meira að segja svo langt að hún segir að þingmenn eigi ekki að fylgja neinum reglum frá kjósendum sínum. Það má túlka stjórnarskrána þannig að hún segi beinlínis að við eigum ekki að hlusta á kjósendur okkar. Að sjálfsögðu vinnum við ekki þannig en svo langt gengur stjórnarskráin. Flokkarnir urðu til eftir að Alþingi varð til. Alþingi varð fyrst til, þingmennirnir komu saman á Alþingi og þeir mynduðu flokka hér. Ég held að við verðum að vera reiðubúin að skoða alveg ofan í grunninn hvaða hlutverk þessir flokkar hafa og ef við erum sammála um að ákveðið oddvitaræði, ákveðið flokksræði, hafi leitt til gagnrýnisleysis og hjarðhegðunar í aðdraganda hrunsins verðum við auðvitað að skoða þessar stofnanir og hvaða hlutverk þær eiga að hafa.

Ég lít í mínum huga svo á að flokkarnir eigi að starfa meira úti í samfélaginu, þeir eigi að vera farvegir fyrir fólk sem aðhyllist ákveðnar lífsskoðanir til að koma saman og fjalla um þjóðfélagsmál og komast að niðurstöðu um hvað það telur best og affarasælast fyrir þjóðina.

Svo á það að vera kjósendum til hægðarauka og einföldunar að frambjóðendur til þings segjast tilheyra einhverjum af þessum flokkum. Það á vera okkur til einföldunar hér líka að vita af því að menn koma úr ákveðnum hópum.

Það sem ég held að okkur hafi mistekist í er að ýta því til hliðar. Við verðum að kunna það, við verðum að kunna að nálgast hvert annað, ekki bara með flokksfána og ekki bara með flokksmerki í barminum heldur líka sem Íslendingar. Við eigum að geta starfað saman hérna sem meira en bara flokksfólk. Ég er framsóknarmaður, og ég er hingað kominn til að vinna fyrir þjóðina á grundvelli stefnu sem Framsóknarflokkurinn hefur en ég er hér líka sem faðir tveggja barna, íbúðareigandi, sem skuldari, sem heimspekimenntaður maður. Það er ýmislegt sem ég hef gert og hef fram að færa á þennan vettvang. Ég held að um leið og við náum að ýta til hliðar þeirri staðreynd að við komum úr ólíkum flokkum muni opnast nýjar hliðar á þinginu sem verði þjóðinni til framdráttar. Þjóðin mun skilja þingið betur. Ef við getum myndað hér andrúmsloft þar sem þingmenn með svipuð áhugamál og svipaðar áherslur, vegna þess hvaða fólk það er, geta starfað saman að framfaramálum án þess að láta flokksstimpilinn flækjast fyrir sér, yrðu ansi stór skref stigin í átt að því að skapa þessari stofnun meiri virðingu og meira traust.

Ég held að þetta sé galdurinn. Og ég held að þegar þjóðin endurnýjaði þingið — frá 2007 eru yfir 40 nýir þingmenn — og miðað við hvernig síðustu borgarstjórnarkosningar fóru í Reykjavík hafi hún verið að æpa það á okkur að við eigum að leggja flokkana til hliðar. Við getum komið frá ákveðnum flokkum en við eigum að kunna að leggja þá til hliðar og taka á viðfangsefnum hér á öðrum grunni. Ég held að það sé krafan.

Ég held að okkur hafi ekki tekist það, hinu nýja þingi. En það verðum við að gera. Það held ég að sé megininntak þess þegar ég segi að við getum gert ákveðna hluti núna. Það gerum við ekki með reglugerðarbreytingum. Þetta er bara nokkuð sem við ákveðum að gera. Það eru margar leiðir til þess.

Okkur verður tíðrætt um hvernig umræðan hefur verið og hún er oft ansi galsafengin og við deilum hart. Mér finnst áríðandi að við horfumst í augu við að þannig verður það örugglega áfram. Ég held að þegar 63 einstaklingar úr mismunandi áttum með áhuga á þjóðfélagsmálum, koma saman í þingsal muni oft sjóða upp úr. Við megum ekki setja markið allt of hátt, við ætlum ekki að vera alveg heilög. Og við munum líka alltaf búa við það að fólk mun hafa misjafnt álit á okkur.

Ég ætla að ljúka ræðu minni á einni sögu: Í vor var ég á ferð um Vestfirði, hitti þar vegavinnuverkstjóra sem talaði tæpitungulaust eins og menn gera á Vestfjörðum og ég held að menn muni alltaf gera það á Vestfjörðum, ekki síst í okkar garð, þingmanna. Þessi vegavinnuverkstjóri sagði einfaldlega, með leyfi forseta — nú held ég að ég þurfi leyfi forseta vegna þess að orðbragð hans var þvílíkt: Þið eruð öll drullusokkar.

Það kom auðvitað á mig sem ungan þingmann, ég var búinn að vera eitt ár á þingi þá og að vera strax orðinn slíkur fannst mér auðvitað dálítið ósanngjarnt, en hann var ekki að hugsa um hrun bankanna, þessi, hann var að hugsa um að við spornuðum ekki gegn útbreiðslu tófu. Þess vegna vorum við drullusokkar.

Ég reyndi nú eitthvað að þræta við hann, en hann var alveg harður á þessu og í raun og veru var niðurstaðan í mínum huga, og ég ætla þá að enda á svona léttþunglyndislegri niðurstöðu, (Forseti hringir.) að við verðum auðvitað að horfast í augu við það að á sama hátt og drullusokkur er einmitt mjög nytsamlegt verkfæri, sem losar um stíflur og kemur rennsli á hlutina, (Forseti hringir.) þá nýtur það engrar virðingar.

Og þannig verða kannski þingmenn alltaf, við erum drullusokkar í nákvæmlega þeirri merkingu.