138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni Ólafi Gunnarssyni fyrir andsvarið og vil byrja á að svara seinni hluta spurningar hans.

Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við komum á miklu betri samskiptum milli ríkis og sveitarfélaga. Nú er unnið að gerð svokallaðs hagstjórnarsamnings sem ég tel að verði mikil framför. Ég vil ítreka að þessi mál eru ekki að byrja í dag með núverandi ríkisstjórn, það má ekki taka gagnrýni minni þannig. Svona hefur þetta verið í áratugi. Ég hef starfað töluvert við sveitarstjórnarmál og það fer ótrúlegur tími sveitarstjórnarmanna, stjórnsýslunnar í Reykjavík og ráðherra og þingmanna í að leysa mjög einföld mál, að mínu viti.

Virðulegi forseti. Við samþykkt bandormsins í júní í fyrra voru færðar tekjur frá sveitarfélögunum upp á 700 milljónir til ríkisins, þ.e. lagt var á tryggingagjald. Sem í raun og veru þýðir að fyrri hluti hækkunar á tryggingagjaldinu fyrir árið 2010 var ekki leiðréttur, sem eru 1.200 milljónir. Þarna erum við komin með 1,9 milljarða. Seinni hækkunin á tryggingagjaldinu var upp á 1.200 milljónir, það var greitt úr ríkissjóði gagnvart sveitarfélögunum. Núna berast mér þær fregnir hins vegar, eins og ég sagði áðan, ég hef ekki nánari upplýsingar, mér hefur ekki verið kynnt fjárlagafrumvarpið, að sveitarstjórnarmenn hafi miklar áhyggjur af því að seinni hækkun tryggingagjaldsins verði ekki leiðrétt við sveitarfélögin. Þá erum við komin með 3,5 milljarða sem ríkið hefur fært frá sveitarfélögunum í tekjum til ríkisins sjálfs. Mörg sveitarfélög voru búin að fara í mjög erfiðar aðhaldsaðgerðir. Síðan voru þær þurrkaðar út í einu vetfangi. Eftir stendur, eins og útlitið er núna, að tekjur sveitarfélaganna munu skreppa saman um rúma 6 milljarða á næsta ári. Það er grafalvarlegt. Við megum ekki gleyma því að sveitarfélögin veita mjög viðkvæma grunnþjónustu (Forseti hringir.) í landinu.