138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég bjóst ekki við því að nefndin kæmist að þeirri niðurstöðu að um hrun markaðsbúskaparins væri að ræða vegna þess að það hefði auðvitað verið röng niðurstaða. Ég hefði ekki gert ráð fyrir því að nefndin kæmist að slíkri niðurstöðu. Auðvitað fór hv. þingmaður sjálfur að ræða um að ástæðan væri hin skefjalausa frjálshyggja og það allt saman, frasar sem við erum höfum heyrt í umræðunni um þetta. Ég var hins vegar að vekja athygli á því að það sem við gerðum á Íslandi var að byggja upp markaðssamfélag sem var mjög áþekkt því markaðssamfélagi sem við þekkjum á Vesturlöndum almennt. Þar fór ýmislegt úrskeiðis. Við höfum farið yfir það. Við sjáum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem þingmannanefndin tekur undir í umfjöllun sinni, að ástæðunnar er fyrst og fremst að leita innan fjármálastofnananna sjálfra og í framferði þeirra.

Það sem ég dró fram var að á þeim tíma var í raun og veru ekki ágreiningur um það hér þyrftu að vera skýrar leikreglur. Enginn vafi er á því að okkur mistókst ýmislegt í því að setja þær leikreglur og okkur mistókst ýmislegt í að fylgja þeim eftir. Það hefur hins vegar ekkert með þessa grundvallarspurningu að gera. Að gefnu tilefni velti ég upp umræðunni frá því í gær þegar þessi mál bar á góma með svipuðum hætti og því haldið fram að þetta væri einhvers konar táknmynd fyrir hrun ákveðins hugmyndakerfis. Ég segi: Ég get ekki fundið því stað í þessari skýrslu. Þar er ekkert sem gefur til kynna nokkuð af því taginu. Auðvitað var rannsóknarnefndin ekki í þeim færum eða hafði ekki það hlutverk að leggja hugmyndafræðilegt mat á hrunið að öðru leyti en því að reyna að draga fram ástæðu þess. Hún rakti ástæðuna fyrst og fremst til tiltekinna atriða sem hafa ekki með þessa hugmyndafræðilegu spurningu að gera.