138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:52]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að vita að þingmaðurinn ætlaðist ekki til þess að rannsóknarnefndin færi í pólitískt uppgjör við hugmyndastefnur. Þingmaðurinn segir að ýmislegt hafi farið úrskeiðis á stjórnarárum fyrri ríkisstjórnar 2003–2007. Það er vissulega rétt. Ýmislegt fór úrskeiðis, en það sem fór úrskeiðis í raun og veru hugmyndafræðilega var að stefnan var tekin of langt. Hún ýktist í athöfnum fjármálakerfisins og í athöfnum ráðandi afla og varð þar af leiðandi sjálfstæð stefna í framkvæmd. Það er auðvitað vandinn. Það var það sem fór úrskeiðis.

Ég ítreka það að hugmyndafræðilegt uppgjör getur að sjálfsögðu ekki átt sér stað á þessum vettvangi í tengslum við skýrsluna sem hér liggur fyrir. Það er hins vegar mjög brýnt að það fari fram og eigi sér stað fyrir opnum tjöldum og úr því verði skorið í kjörklefanum þegar þar að kemur.