138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[19:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Nú eru nærri tvö ár frá því að hrunið varð og fjármálakerfi þjóðarinnar hrundi með óskaplegum afleiðingum fyrir mjög marga, fólk missti vinnuna, fólk missti eignir, lán hækkuðu óeðlilega o.s.frv. Það er fortíð og saga. Þjóðin á líka framtíð. Við þurfum að horfa á framtíðina í auknum mæli og hætta að einblína eins mikið á fortíðina og mér sýnist margir hafa gert. Við eigum að fara að skipta þessu upp í það sem gerðist fyrir hrun og eftir hrun alveg sérstaklega því að einhvers staðar liggur framtíðin.

Mér finnst að íslenska þjóðin kalli mjög eftir hugmyndafræði, þ.e. sýn á hvert við erum að fara. Hvert er þjóðin að fara frá þeim stað sem hún er stödd á núna? Mér sýnast allt of margir vera að hugsa um hvar við vorum, hvað við vorum að gera og hvað gerðist. En það eru mjög fáir sem segja þjóðinni: Við ætlum að fara þangað.

Mér finnst þetta ferli — rannsóknarnefnd Alþingis sem sett var á með lögum í árslok 2008 stuttu eftir hrun, síðan skýrsla þeirrar sömu rannsóknarnefndar sem var algjörlega frábær, síðan stofnun þingmannanefndar til að vinna úr þeirri skýrslu og hún kom með þær tillögur sem við ræðum hér — þessar tillögur eru framtíðarsýnin. Þær eru sýnin sem segir okkur hvert þjóðin er að fara. Ég hygg að þegar rykið er fallið og menn fara að skoða söguna eftir svona 20, 30 ár, muni þeir segja að þetta hafi verið leyst frábærlega. Það er sannfæring mín að við höfum stigið mjög góð skref í því að vinna úr því sem gerðist og nota það til að búa til framtíðarsýn. Ég er því afskaplega ánægður með það plagg sem við höfum í höndunum, fyrir utan það að bæði rannsóknarnefndin og þingmannanefndin höfðu kjark til þess að taka mjög alvarlega á málunum, segja nákvæmlega hvað gerðist, draga ekkert undan, segja ekkert af tillitssemi við einn eða neinn.

Þessar skýrslur báðar eru mjög berorðar. Þær segja það sem segja þarf og ég held að við höfum nálgast sannleikann eins og hægt er. Auðvitað nær maður honum aldrei. En við erum búin að nálgast sannleikann. Mér finnst ég vera kominn með þá mynd af fortíðinni að ég geti dregið af henni ákveðinn lærdóm.

Ég ber því miklar væntingar til þess að þjóðin finni framtíðarsýnina sína, að hún finni hana og viti hvert hún er að fara, þá kannski sjatnar reiðin sem margir hafa leyft sér að láta krauma allt of lengi. Reiði er nefnilega mjög neikvæður eiginleiki sem menn ættu ekki að leyfa sér að láta blossa upp því að reiðin er verst fyrir þann sem er reiður, langsamlega verst. Hún eyðileggur líf hans. Reiðin er neikvæður þáttur sem byggir ekki upp, hann brýtur niður. Það er nauðsynlegt fyrir okkur núna að byggja upp og vita hvert við erum að fara.

Meginniðurstaða bæði þingmannanefndarinnar og skýrslu rannsóknarnefndarinnar er að það er of mikið samsull á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Það er reyndar nokkuð sem ég hef bent á síðan ég kom inn á þing, að frumvörp eru samin hjá framkvæmdarvaldinu, að Alþingi setur þessa og hina framkvæmdina inn í fjárlög sem enginn getur haft eftirlit með því að það er Alþingi sem á að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga og getur ekki haft eftirlit með því sem það ákveður sjálft. Það er held ég mjög slæmt fyrir báða aðila. Það er mjög slæmt fyrir Alþingi því að það verður mjög veikt þegar engin frumvörp eru samin hér á þingi, því að sá sem semur frumvarp og sá sem ritstýrir frumvarpi hefur mest um það að segja hvernig lagabálkurinn lítur út. Eins og fyrirkomulagið er núna semur einhver maður eitthvert frumvarp en ráðherra og ráðuneytið þurfa að samþykkja það fyrst, síðan ríkisstjórn og þá stjórnarflokkarnir. Svo er frumvarpið lagt fram og sent til nefndar. Allir þessir aðilar þurfa að rökstyðja breytingar sem upphaflegur höfundur þarf ekki að gera. Þess vegna er vald hans mjög mikið í því að móta hina endanlegu löggjöf.

Ég held að það gagnist báðum að gera skilin á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds skarpari. Ef Alþingi semur öll frumvörp — það gæti sem sagt litið þannig út að þeir sem telja að þurfi að gera breytingu á lögum, t.d. ráðuneytin eða ráðherra, snúa sér til viðkomandi nefndar og óska eftir því að hún taki málið upp og semji frumvarp um það erindi sem þeir hafa, þær breytingar sem þeir vilja sjá. Það gætu félagasamtök og einstaklingar líka gert o.s.frv. Til dæmis gæti einstaklingur óskað eftir breytingu varðandi barnaverndarlög, síðan tekur nefndin um það ákvörðun hvort hún vill fara í þær breytingar og semja frumvarp sem nauðsynlegt er, og þá hefur ráðherrann væntanlega meiri hluta í nefndinni.

Auðvitað þyrfti að flytja fólk úr ráðuneytunum ef þetta færi svona fram. Við erum með fjárveitingavaldið þannig að við getum alveg borgað þessu fólki sömu laun á nefndasviði Alþingis eins og við borgum því í dag í ráðuneytunum. Afleiðingin af því yrði sú að ráðuneytin mundu bara vinna við að framkvæma og framkvæmdin yrði miklu skýrari en þegar menn blanda því saman við lagasmíð. Verksvið Alþingis yrði líka mikið skýrara. Það mundi semja öll frumvörp að lögum sem hér yrðu lögð fram. Það held ég að yrði mjög jákvætt vegna þess að þingmenn eru jú kosnir af þjóðinni til þess að setja henni lög. Þeir eiga náttúrlega samkvæmt því að setja og semja þau lög sem hér eru samþykkt.

Frú forseti. Ef ég fer í gegnum þessar báðar skýrslur, bæði frá rannsóknarnefnd Alþingis og frá þingmannanefndinni, vantar í þær nokkur atriði. Þær eru ekkert alfullkomnar. Þingmannanefndin var sett á laggirnar til að skoða rannsóknarnefndina eða skýrslu rannsóknarnefndarinnar, þannig að það sem vantar inn í skýrslu rannsóknarnefndarinnar vantar líka hjá þingmannanefndinni. Það sem mér finnst vanta eru útlönd. Ég spurði í andsvari í gær hvort menn teldu að Ísland væri eyland, þ.e. algerlega aflokað frá öllum umheiminum. En svo er að sjálfsögðu ekki. Þó að Ísland sé eyja er það langt frá því að vera eyland. Við erum í mjög miklum samskiptum við aðra. Til dæmis mátu matsfyrirtækin bankana ótrúlega hátt, gáfu þeim AAA, sem var alveg ótrúlegt. Ég tel að það sé ekki lítil ábyrgð að gefa einhverjum litlum bönkum þvílíka einkunn sem gerði það að verkum að þeir áttu greiðan aðgang að ódýru lánsfé um allan heim sem þeir ella hefðu ekki fengið. Ábyrgð matsfyrirtækjanna er því mjög mikil.

Ábyrgð endurskoðenda er líka mjög mikil. Þeir gáfu þessar forsendur fyrir matsfyrirtækin til að meta bankana. Það hafði í för með sér að hér streymdu inn alveg gífurlegir peningar. Þeir streymdu reyndar ekkert inn, þeir fóru beint aftur út, að ég fullyrði. Það kemur heldur ekki fram í rannsóknarnefndarskýrslunni þó að ég hafi beðið nefndina um það með tölvubréfi að komast að því hvað miklu af þessum gjaldeyri var skipt í krónur af þeim lánveitingum sem bankarnir tóku. Það hefði mátt sjá strax með þeim tækjum og tólum sem rannsóknarnefndin hafði. Ég sé ekki að hún skoðað gert það. Ég held því fram að þessir peningar sem bankarnir tóku að láni hafi farið meira og minna til útlanda, í fjárfestingar í London, í fjárfestingar í Finnlandi o.s.frv. Það kemur fram í hvorugri skýrslunni.

Ástæðan fyrir þessu öllu saman, að ég tel, er raðeignarhald og krosseignarhald og lánveitingar til eigenda og kaup í eigendum sem býr til hringstraum af peningum og sýnir gífurlega peninga sem ekki eru til. Endurskoðendur sjá ekki í gegnum þetta vegna þess að þeir skoða bara móður- og dótturfyrirtæki en ekki móðurmóðurfyrirtæki eða dótturdótturfyrirtæki. Svo földu menn eignarhaldið á Tortóla og víðar þannig að það var ekki nokkur leið að rekja hver var eigandi hvers. Það held ég að hafi verið meginástæðan. Það varð til þess að bankarnir sýndu ótrúlega mikið eigið fé, mikinn hagnað, því að það spólar upp hagnað líka. Það spólar reyndar líka upp völd þannig að stjórnir fyrirtækjanna réðu öllu, ekki hluthafarnir. Það varð til þess að matsfyrirtækin gáfu þessum fyrirtækjum háa einkunn, þessum óskaplega ríku fyrirtækjum með mikið eigið fé, og það varð til þess að útlendingarnir komu hingað með sína dýru peninga sem ég hef kallað kannski dálítið niðurlægjandi „vitleysingana sem lánuðu vitleysingunum“ — þeir bera líka ábyrgð. Það vantar inn í skýrsluna að segja frá því að þessir aðilar þrír, þ.e. endurskoðendur, matsfyrirtækin og lánveitendurnir, bera mikla ábyrgð. Og ekki var sagt frá veilunni sem er í hlutabréfaforminu, sem ég hef sýnt fram á og sannað. Það er reyndar vísað í frumvarp mitt um gagnsæ hlutafélög í skýrslu þingmannanefndarinnar, en áhrif þess eru ekki nefnd. Það er sem sagt það sem vantar.

Svo er hérna rætt um oddvitaræði og flokksræði, það er dálítill munur á því. Oddvitaræði þýðir að einn maður ræður í flokknum, í þingflokki sínum yfirleitt, en það getur líka gerst að oddvitinn hlusti á flokkinn og móti sér afstöðu þannig að flokkurinn komi fram sem ein heild en ekki þannig að einstakir þingmenn greiði atkvæði samkvæmt samvisku sinni. Það getur veikt lýðræðið mjög mikið á hinu háa Alþingi. Oddvitaræði og flokksræði eru stórhættulegt hvort um sig, enda hef ég ætíð varað við því. Ég hef aldrei sagt „við sjálfstæðismenn“ — ég hef aldrei sagt það. Menn ættu að venja sig af því að segja slíkt.

Hrunið var skelfilegt fyrir þjóðina, en við skulum nýta þá kosti þess sem hægt er að nýta. Kostirnir eru nefnilega þeir að hrunið kallar á breytingar. Fólk og flokkar og allir eru tilbúnir til að fara í breytingar. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar og sérstaklega þingmannanefndarinnar segir mér að menn eru núna tilbúnir í breytingar. Nú skulum við bara kýla á það. Mótum þjóðinni ákveðna stefnu. Forseti Alþingis kom með bráðskynsamlega tillögu um breytingu á þingsköpum. Ég var yfir mig hrifinn þegar ég las hana, bæði hvernig stjórnarandstaðan er tekin inn og hvernig breyta á öllum vinnuferlum, ég var mjög ánægður með það. Tillagan er til skoðunar í þingflokkunum núna — sem er líka mjög merkilegt, frú forseti, að hún skuli vera til skoðunar í þingflokkunum. Menn geta komið með athugasemdir. Ég skora á þingmenn fram að 1. október að koma með breytingar og hugmyndir og ræða þetta fram og til baka.

Hér hefur verið rætt um siðareglur. Ég tek eiginlega undir það sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði áðan um siðareglur, að siðareglan ætti eiginlega bara að vera ein: Skoðaðu og spurðu hverju sinni þegar þú tekur ákvörðun hvort hún er rétt. Hver og einn ætti bara að spyrja sig að því: Er þessi ákvörðun rétt? Að menn viti yfirleitt hvað er rétt og hvað er rangt. Ef þeir vita það ekki breyta siðareglur engu þar um. Það er það sem menn eiga að gera.

Ég er með nokkrar tillögur til breytinga á þeim frábæru tillögum sem þingnefndin kemur með. Það er eiginlega meira til að dýpka þær. Hér stendur í 1. málslið tillagnanna:

„Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé vitnisburður um þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára og telur mikilvægt að skýrslan verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni. “

Þetta er allt hárrétt, en eftir 20 ár mun enginn skilja um hvað þetta fjallar. Ég vil segja að Alþingi álykti að það sé vitnisburður um þá þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undanfarinna ára sem leiddi til hruns bankanna haustið 2008 og telji mikilvægt að skýrslan verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni við brýnar úrbætur — að við bætum því við. Þetta er sem sagt meira skerping á því hvað menn eru að segja. Ég hugsa að sé nú enginn á móti þessu.

Svo er ég með tillögu sem ég hygg að margir muni gera athugasemd við, sérstaklega þeir sem hafa verið ráðherrar. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.“

Ég legg til að þar komi til viðbótar: „Það verði gert m.a. með því að þingmenn og þingnefndir semji þau frumvörp sem lögð eru fram á Alþingi eða ritstýri þeim.“

Þetta er mjög mikil breyting og ég nefndi áðan hvernig virkja á samskipti Alþingis og framkvæmdarvaldsins.

Síðan kemur ein breyting sem undirstrikar sjálfstæði Alþingis: „Alþingi ályktar að það skuli starfa samkvæmt eigin fjárlögum og að þingmenn verði á launaskrá hjá Alþingi.“

Þá hætti ég sem sagt að vera launþegi hjá fjármálaráðherra og fer að verða launþegi hjá Alþingi. Það er meginmunur á því. Ég held menn ættu að ræða það og fara dálítið ítarlega í þá breytingu og skoða hana.

Síðan þegar menn tala um hverjir bera mesta ábyrgð vildi ég skjóta inn: „erlendum matsfyrirtækjum og lánveitendum bankanna“ á undan „stjórnendum og helstu eigendum“ til þess að undirstrika að þeir koma líka inn í þessa keðju ábyrgðaraðila. Svo vil ég bæta við „sem og veila í hlutabréfaforminu“, sem ég hef bent á.

Svo er ég með eina litla breytingu því að það stendur hérna merkilegt nokk að forsætisráðherra eigi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að koma að því að ráðast í eftirfarandi breytingar. Ég er alfarið á móti því. Alþingi getur ekkert ætlast til þess þegar það býr til skil á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds að framkvæmdarvaldið komi að því að setja reglurnar. Við eigum að bera höfuðið hátt og treysta okkur sjálf í allar þessar breytingar, enda eru þær allar á verksviði Alþingis, þ.e. að semja frumvörp, gera þær rannsóknir sem er lagt til að verði gerðar o.s.frv.

Svo er þarna smávægileg breyting sem ég ætla að gera sem er að bæta inn í löggjöf um starfsemi fjármálamarkaða. Þar komi „og lög um hlutafélög og einkahlutafélög“. Þá hef ég í huga þetta raðeignarhald og krosseignarhald sem þarf að taka einhvern veginn á, frú forseti, jafnvel þó að það sé alþjóðlegt vandamál getum við ekki lifað við það lengur.

Mér líst mjög vel á þær rannsóknir sem lagt er til að fari fram. Ég held þær séu mjög nauðsynlegar. Ég hef mörgum sinnum lagt fram hugmyndir um að sjóðfélagar kjósi t.d. stjórnir lífeyrissjóða. Það var kolfellt. Ég hef meira að segja komið með litla breytingu sem sagði: „Lífeyrissjóðir eru eign sjóðfélaganna“. Það var líka kolfellt. Ég spyr þá: Hver á þá eiginlega ef ekki sjóðfélagarnir? Þeir eru þeir einu sem eiga réttindi þarna.

Síðan er hér lögð til rannsókn á aðdraganda og orsökum falls sparisjóðanna. Ég tel það mjög mikilvægt vegna þess að ég hef grun um að þar hafi ýmislegt verið að, en ég vil ganga miklu lengra. Ég vil að rannsóknin nái yfir þróunina á sparisjóðunum frá 1990, þá keyptu sparisjóðirnir nefnilega Kaupþing og bjuggu til fyrirbæri sem hét Meiður, sem seinna varð Exista sem átti 20% í Kaupþingi og Kaupþing átti 20% í Existu. Það er fyrirbæri sem ég tel mjög mikilvægt að verði rannsakað, hvað gerðist þarna eiginlega? Ég átti reyndar hlut að því þegar ég var í stjórn SPRON, og stóð í þeim slag öllum, að reyna að koma í veg fyrir að stofnfjáreigendur töpuðu því sem þeir áttu því að það hefði gerst. Ég ætla nú ekki að fara nánar út í það.

Samanlagt er ég mjög ánægður með þessar tillögur. Við ættum eiginlega að kalla þetta tillögu til þingsályktunar um framtíðina eða breytingar til framtíðar, vegna þess að við tölum um að breyta uppbyggingu íslensks þjóðfélags með því sem við lærum af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Við erum að læra af henni og við erum að draga ályktanir og við erum að gera breytingar. Þetta er framtíðarsýn íslenskrar þjóðar og ég er mjög ánægður með þetta starf. Síðan ræðum við um ábyrgð ráðherranna og slíkt, þá verður tónninn hjá mér kannski ekki alveg eins jákvæður.