138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og hlý orð í garð okkar nefndarmanna í þingmannanefndinni. Mér fannst þær hugmyndir mjög athyglisverðar sem hv. þingmaður setti fram varðandi rannsókn á Íbúðalánasjóði. Nú liggur það fyrir að sú sem hér stendur er ekkert sérstaklega fylgjandi því að við séum í rannsóknum um fortíðina endalaust en hins vegar verðum við að sjálfsögðu að ná að klára að fara yfir sviðið. Þess vegna finnst mér þessi tillaga mjög athyglisverð. Væntanlega á hv. þingmaður þá við að í slíkri rannsókn verði líka farið yfir fjárfestingarstefnu Íbúðalánasjóðs á því tímabili og í rauninni innviðina alla.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort þingmaðurinn hyggist koma með breytingartillögu við þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar, vegna þess að mér skilst að búið sé að boða nokkrar breytingartillögur. Það væri ástæða til að fagna því ef tillaga sem þessi kæmi fram og reynt yrði að móta umgjörð á slíkri rannsókn frekar.