138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir taki vel undir tillögu mína. Ég mun leggja fram breytingartillögu þessa efnis og síðan er það þingsins að taka afstöðu til hennar. Ég geri það út frá því að ég tel það ríka almannahagsmuni að við vitum af hverju það er sem við lendum í auknum álögum á ríkissjóð sem útlánatap Íbúðalánasjóðs svo sannarlega er.

Ég tel líka að fyrir almenning á Íslandi sem fjárfestir mikið, það er almennt að fólk á Íslandi fjárfesti í íbúðarhúsnæði — það skiptir því sköpum að við komum húsnæðislánamarkaðnum í það horf að ekki sé færð yfir á heimilin í landinu gríðarleg áhætta við það að koma sér þaki yfir höfuðið. Við þurfum að horfast í augu við það að húsnæðismál eru tvenns konar, þ.e. annars vegar grundvöllurinn undir velferð heimilanna í landinu en hins vegar eru þau fjárfestingar heimilanna og hafa þar af leiðandi mikil áhrif í hagstjórnarlegu tilliti. Við verðum að horfast í augu við báða þessa þætti húsnæðislánamarkaðarins og vera með stefnu þar sem eitt ógnar ekki öðru.