138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:06]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru uppgjörstímar. Það eru uppgjörstímar hjá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum og hjá samfélaginu. Það er almennt verið að gera upp fortíðina, kannski mest hina efnahagslegu fortíð. Við hér á hinu háa Alþingi erum í uppgjörsgírnum. Það reynum við að gera á faglegan og hlutlægan hátt með því að láta rannsaka fyrir okkur tiltekna hluti.

Hin frábæra skýrsla sem rannsóknarnefnd þingsins vann fyrir okkur er dæmi um slíka faglega úttekt og nú hefur þingmannanefnd unnið ákveðnar tillögur til úrbóta á rammanum sem íslenskt samfélag starfar innan út frá þeirri skýrslu. Mig langar til að þakka nefndarfólkinu í þeirri nefnd fyrir hið mikla starf þess og ekki síður fyrir þá samstöðu sem það náði um efni skýrslunnar. Sú samstaða er afar mikils virði á uppgjörstímum og ég styð tillögur nefndarinnar heils hugar.

Vinna okkar beinist nú að samfélaginu, að fjármálafyrirtækjum og opinberum fyrirtækjum. Síðan erum við þingmenn sem einstaklingar, eins og aðrir einstaklingar í íslensku samfélagi, að gera fortíðina upp í okkar kolli og hjarta. Ég er t.d. ekki í vafa um að eftirlitslítið frelsi í viðskiptalífinu í anda nýfrjálshyggjunnar hefur beðið skipbrot. Nota ég þá hugtakið nýfrjálshyggja í merkingunni einstaklingshyggja með áherslu á mikilvægi frelsis- og eignarréttinda, trú á að frjáls viðskipti stuðli að bestum lífskjörum og vantrú á að ríkisafskipti hafi góð áhrif á samfélagið.

Því miður kunnu menn ekki með frelsið að fara. Frelsið sem er svo dýrmætt ef maður kann með það að fara, ef maður kann að takmarka frelsi sitt við skerðingu á frelsi og hagsmunum annarra. Hin einfalda lagahyggja — allt má sem ekki er beinlínis bannað — og skortur á þeirri hugmyndafræði að þar sem lögum sleppir taki siðferði og dómgreind við, breytti því miður hinu vandmeðfarna frelsi í helsi.

Ég hef í því uppgjöri sem ég hef átt með sjálfri mér sannfærst enn frekar um að hugmyndafræði sem leggur áherslu á samfélag og samfélagslega ábyrgð og tryggir afkomuöryggi fjöldans og réttláta tekjuskiptingu innan eðlilegs lagaramma og með hæfilegu opinberu eftirliti sé líklegra til að skapa gott samfélag með heilbrigðum atvinnuháttum og þjónustu við þegna sína en sú hugmyndafræði sem við gerum nú upp með áðurnefndum skýrslum.

Það kemur fram í skýrslu þingmannanefndarinnar að skerpa þarf talsvert á kennslu í siðfræði og siðfræðilegum álitamálum í skólakerfi okkar á öllum stigum. Undir það tek ég heils hugar og vona að sú ábending rati inn í námskrár. Umræða um dómgreind og gagnrýna hugsun og hvernig maður tekur rökstuddar ákvarðanir á grundvelli skynsemi og siðferðis þarf líka að vera stöðugt í gangi í skólakerfinu og reyndar í samfélaginu öllu. Siðferði okkar er í raun þær grundvallarreglur sem við byggjum ákvarðanir okkar um rétt og rangt á, svo og hvernig við umgöngumst annað fólk. Fátt skiptir meira máli. Við verðum því að leggja áherslu á þann þátt í skólakerfinu og í raun allri umræðu um viðmið og ramma.

Ég fletti upp í Páli Skúlasyni í gærkvöldi eins og svo oft áður þegar mér finnst ég þurfa að setja hluti í siðferðilegt samhengi.

Hann segir m.a. í grein sem hann kallar „Vitið og aflið eða heimspeki og stjórnmál“, með leyfi forseta:

„Siðir eða ósiðir í stjórnmálum ráðast fyrst og fremst af því hvort lagt er meira upp úr vitinu eða aflinu, hvort það er valdið eða skynsemin sem á að hafa forgang.“

Grein sína „Siðferði í íslenskum stjórnmálum“ frá 1986 endar Páll á þessum orðum, með leyfi forseta:

„Þjóðin þarfnast núna fyrst og fremst stjórnmálamanna sem skeyta ekki fyrst og fremst um það hvernig þeir virka sem leikbrúður almenningsálits — manna og kvenna sem vilja einfaldlega sinna stjórnmálum, ekki sem valdabaráttu eingöngu heldur sem viðleitni til að móta stefnu og taka ákvarðanir í þeim málum sem varða landsins gagn og nauðsynjar. Á vettvangi stjórnmála er fullt af fólki sem hefur alla kosti sem manneskjur til að hrista upp í stirðnuðu siðakerfi og ráðast gegn þeim röngu viðhorfum til stjórnmála sem gegnsýra íslenskt þjóðlíf.“

Í útvarpserindi sínu á jóladag 2008 segir hann í lokaorðum sínum, með leyfi forseta:

„Nú skulum við hugsa og ræða saman á nýju ári eins og við séum að hefja landnám að nýju á Íslandi og ætlum okkur að skapa hér andlegan samastað fyrir komandi kynslóðir Íslendinga. Og þetta skulum við gera með því að leggja okkur fram um að ræða þau gildi sem við viljum hafa í hávegum, með því að gæta jafnvægis á milli allra sviða þjóðlífsins og með því að vanda til þess hvernig við deilum lífsgæðum á milli okkar, hvernig við deilum með okkur sameiginlegum gæðum lífsins og hvernig við deilum um lífsgildi.

Megi hófstilling, hugrekki og viska fylgja hinu nýja landnámi okkar.“

Mér finnst sá samhljómur sem er með niðurstöðum þingmannanefndarinnar og orðum Páls Skúlasonar gefa mér góðar vonir um að nú verði breyting á umræðuhefðinni hér í þinginu í þeim anda að vitið verði meira áberandi en aflið. Íslensk þjóð á það skilið eftir þær hremmingar sem yfir hana hafa gengið í kjölfar hrunsins, hin virðulega stofnun Alþingi á það skilið og sjálfsvirðing okkar sem hér störfum á það skilið.

Þingmannanefndin nefnir það sem við vissum auðvitað öll í hjarta okkar: Störf þingmanna eiga að mótast af hugrekki, heiðarleika og festu. Það tel ég góða brýningu og í góðu samræmi við það sem ég hef þegar sagt og vitnað til. Við höfum sjálfsagt mismunandi skoðanir á því hvernig hugrekki og festa birtist en skilgreining mín felst í því sem ég hef þegar sagt.

Það eru tvö pör hugtaka sem mér finnst vera gegnumgangandi í þeirri skýrslu sem við ræðum hér. Það eru vinkonurnar stefnufesta og formfesta og síðan almannahagsmunir og andheiti þess, sérhagsmunir. Svo virðist sem stefnufestan og formfestan hafi lítið fengið að vera með í stjórnmálapartíi síðustu ára. Hentistefna og formleysi virðist því miður hafa einkennt íslenska stjórnmálamenningu í áratugi. Fyrri reynsla mín á vettvangi skólamála og bæjarmála í fremur fámennu sveitarfélagi segir mér að stefnufestan og formfestan hafi verið mun meiri þar en hjá þeim sem hafa stjórnað ríkinu Íslandi og kaldhæðnislegast er að tilmælin um þessa formfestu bárust frá hinum formlitlu stjórnvöldum sem stjórnuðu lýðveldinu Íslandi. Mikið sem það er alltaf erfitt að líta í þennan eigin barm.

En nú hafa komið fram beinar tillögur um úrbætur á stjórnsýslunni og á starfsháttum Alþingis og er það verulega ánægjulegt. Mér finnst að tillögurnar ættum við að lista upp á vefsvæði sem til þess þykir heppilegt fyrir almenning á Íslandi og merkja síðan reglulega við á þeim gátlista hvar úrbæturnar eru staddar í ferlinu svo almenningur geti veitt okkur það aðhald sem þarf.

Það sama á við um úrbætur í rammanum utan um fjármálafyrirtæki og eftirlitsstofnanir.

Í rannsóknarskýrslunni er talað um mikilvægi fjármálastofnana fyrir hvert samfélag og sagt að hagsæld einstakra ríkja sé háð því hvernig staðið sé að þeim stofnunum. Það sem þurfi að vera í lagi til að þetta fjöregg samfélaga gegni eiginlegu hlutverki sínu er t.d. skýrt eignarhald, eftirlit með bönkum, samkeppni þeirra á milli, eftirlit sem þeir veita lántökum sínum, kerfislegt mikilvægi og traust samfélagsins. Einmitt þetta mikilvægi bankanna fyrir samfélagið átti að kveikja á öllum viðvörunarbjöllum eftirlitsaðila og stjórnvalda þegar varnaðarorð féllu um að bankakerfið væri að vaxa gjaldmiðli og þjóðarbúi yfir höfuð. En eyrnatappar sérhagsmuna og aðgerðaleysis kæfðu hljóma frá viðvörunarbjöllunum.

Það er því afar gott að vita að listaðar hafa verið upp tillögur til úrbóta í lagaramma þessara mikilvægu stofnana og legg ég til að þær verði listaðar upp á vefsvæði eins og ég sagði áðan.

Ég hef hér alls ekki reifað öll atriði skýrslunnar heldur valið þau atriði út sem mér finnast áhugaverðust á þessum tímapunkti. Sem nýjum þingmanni eru mér vinnubrögð löggjafans og stjórnvalda afar hugleikin. Yfir þeim er felldur áfellisdómur bæði í rannsóknarskýrslunni og þingmannaskýrslunni. Það kemur mér ekki á óvart því mér finnst skortur á stefnufestu og formfestu hafa æpt á mig. Hvar er stefnumörkunin í hverjum málaflokki? Ég tel stefnumótun ekki geta farið fram í tómarúmi, að henni þurfa allir aðilar að koma með hugmyndir sínar og hún þarf sinn tíma. Við búum ekki til stefnu sem virkar öðruvísi en að hleypa öllum aðilum að borðinu og leyfa henni að þróast í meðförum yfir tíma. Þessa þáttar hef ég saknað verulega í nýja starfinu mínu, man raunar ekki eftir að hafa ekki stöðugt verið að vinna að stefnumótun í einhverjum málaflokki í mínum fyrri störfum.

En batnandi kerfi er best að lifa og ég treysti því að við förum nú að vinna stefnufast og ákveðið, hugrökk og heiðarleg að því að finna út hvert við ætlum að stefna í hinum ýmsu málaflokkum íslensks samfélags, bjartsýn á framtíð þess.