138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu sína sem ég er í öllum grundvallaratriðum ekki sammála en það kemur svo sem ekki á óvart. Ég er dálítið á sömu nótum og fyrri ræðumaður í síðasta andsvari en vil þó þakka hæstv. ráðherra fyrir að hún beri virðingu fyrir okkur sjálfstæðiskonum, það er gott að heyra það.

Ég hef lesið þessa kynjagreiningu og ég verð að viðurkenna í fyrsta lagi að ég skil hana ekki. Þarna eru einfaldlega notuð orð sem ég skil ekki og þótt andsvarið sé stutt ætla ég að lesa úr henni, með leyfi forseta:

„Skýrslan sýnir að áhrifarík leið til að tákngera valdatengsl er að kyngera þau og dæmi eru um að karlar séu jaðarsettir og jafnvel kvengerðir í formlegu hlutverki sínu. Þannig einskorðast kynjavíddin ekki við líffræðilegt kyn heldur getur kyngervi einnig leikið stórt hlutverk.“

Ég skil þetta ekki, ég ætlast ekki til að hæstv. ráðherra skýri þetta út fyrir mér. Ég vil hins vegar halda því fram að það séu fyrst og síðast pólitískar skoðanir sem valda því að við erum ósammála um t.d. uppbyggingu í atvinnumálum. Hæstv. ráðherra segir að brjálæðið sé byrjað aftur, við ætlum að ryðjast af stað og bera enga virðingu fyrir umhverfinu. Ég mótmæli því harðlega. Rannsóknir á jarðvarma á Suðurnesjum og á Reykjanesi eru gerðar að uppfylltum öllum umhverfisskilyrðum. Til eru lög og reglur í landinu sem setja rammann utan um þetta. Stundum hefur hæstv. umhverfisráðherra að vísu farið út fyrir þann ramma með því t.d. að taka sér lengri fresti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra talaði sérstaklega um að bæta þyrfti vinnubrögð og ég vona sannarlega að hún taki fyrst þá hvatningu til sín vegna þess að oft hefur ráðuneyti hennar verið bert að alls kyns reglubrotum, ekki síst hvað varðar tímafresti.