138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:53]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Enn og aftur velti ég fyrir mér orðfæri hv. þingmanns um að allt sé bannað og allt sé stoppað. Ég held að við komumst ekkert áfram með því að skylmast með svona orðalagi.

Varðandi athugasemd þingmannsins um að of langt sé gengið í fræðigreininni þá velti ég fyrir mér hvað þeim ágæta þingmanni þyki mátulegt að sé gengið í kynjafræðum. Ég vil síðan ítreka það að atvinnuleysi er gríðarlega alvarlegt mál og það er alvarlegt mein. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. En við megum hins vegar ekki byggja vonir heilu byggðarlaganna á draumsýnum og á hugmyndum sem koma aldrei til með að verða að veruleika. Það er að mínu mati ekki vel gert gagnvart þeim samfélögum að byrja að slá upp fyrir verksmiðju áður en fyrir liggur hvaðan orkan á að koma.