138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:47]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað þann möguleika að flytja breytingartillögu þess efnis að ráðherrar séu ekki þingmenn á sama tíma, enda liggur fyrir frumvarp af því tagi sem sú er hér stendur er 1. flutningsmaður að og hv. þm. Pétur Blöndal er á þannig að það frumvarp liggur fyrir og hefur farið í gegnum 1. umr. Það væri ekki nýtt mál. En kannski þarf að skoða betur hvort menn vilji taka afstöðu til þess í sambandi við þetta mál. Ég er ekki viss um að það sé leiðin. Ég held að líklegasta leiðin sé að stjórnlagaþing fjalli bráðlega um þetta og komi með þessa ábendingu inn í þingið og mikil samstaða verði um málið. En ég ætla svo sem ekki að útiloka að hægt sé að flytja einhverjar breytingartillögur af þessu tagi. Ég hafði ekkert hugsað það.

Ég heyri að hv. þingmaður tekur undir að stundum stendur maður hér og horfir svo á sjónvarp og þá sýna fjölmiðlar allt annan fund en maður upplifði sjálfur. En af því að við erum að tala um fjölmiðla og aðhaldshlutverk þingsins á framkvæmdarvaldið, og ég er ekki að grínast þegar ég segi þetta, en ég held að t.d. það að Spaugstofan sem fjöldi manns horfði á í gegnum árin sé farin úr ríkissjónvarpinu hafi svolítið minnkað aðhaldið á framkvæmdarvaldinu. Ég held að Spaugstofan hafi átt þátt í aðhaldi á framkvæmdarvaldinu þó að það hafi ekki verið hlutverk hennar. Menn muna hvernig framkvæmdarvaldið var stundum tekið í bakaríið þar.