138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Mig langar að koma inn á einn þátt sem hv. þingmaður ræddi hér mikið um, þ.e. þegar hann setti samhengi milli flokksræðis og oddvitaræðis sem er búið að vera allt of lengi við lýði hjá íslenskum stjórnvöldum að hans mati. Ég get að sumu leyti tekið undir það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann hefur fylgst með störfum þingsins, eins og margoft hefur komið fram, sem fréttamaður í gegnum tíðina þó að við séum búnir að sitja stutt saman á þingi, hvort eitthvað hafi breyst að hans mati. Eins og þetta blasir við mér, og við sáum mjög glöggt í fyrra, sýndi hæstv. forsætisráðherra alveg eindæma tilburði í oddvitaræði og flokksræði. Það gekk meira að segja svo langt að hæstv. forsætisráðherra hótaði stjórnarslitum í beinni útsendingu ef þingmenn hins stjórnarflokksins gerðu ekki eins og fyrir þá var lagt. Mig rekur ekki minni til að hafa séð álíka tilburði til einræðis, flokksræðis og oddvitaræðis og hæstv. forsætisráðherra hefur sýnt á þingi eftir að ég kom inn á þing.

Hv. þingmaður kom líka inn á það sem ég er sammála honum um, að það þurfi að styrkja lagaumhverfið og að Alþingi komi meira að lagasetningunni sjálfri. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það.

Hv. þingmaður sagði að það væri mjög sérkennilegt að embættismannakerfið byggi til lagafrumvörp. Þá verð ég að benda á, virðulegi forseti, að embættismennirnir í ráðuneytinu breyta auðvitað ekki skattkerfinu öðruvísi en að ráðherrarnir, oddvitar ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin í heild sinni, biðji þá um það. Það er ekki þannig að embættismennirnir komi bara með frumvörp og hendi í ríkisstjórnina og svo komi ríkisstjórnin og flytji frumvörpin. Stjórnvöld fela embættismönnunum að vinna þau verk sem þau vilja. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni að allar þessar aðgerðir í skattamálum eru um margt umhugsunarverðar.