138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég reyndi að benda á í andsvari mínu var að með skýrslunni gerum við upp fortíðina og ætlum að horfa til framtíðar með jákvæðum hug og reyna að breyta. Ég er sammála hv. þingmanni um það. En við þurfum líka að staldra aðeins við í nútíðinni því hún er ekkert skárri en fortíðin. Ég velti fyrir mér hvar fortíðin tekur enda því við vinnum að málum með þeim hætti í dag að það er hreint með ólíkindum. Hæstv. ráðherrar taka ákvarðanir sem hafa í för með sér mjög stórar fjárhagslegar afleiðingar fyrir heila þjóð og það er ekki einu sinni borið upp í þingflokkum stjórnarflokkanna. Ég kalla eftir þessu í umræðunni, menn þurfa líka að setja sig inn í nútíðina, hvernig unnið er í dag. Ég geri mér fulla grein fyrir því ef skýrslan á ekki að vera bara froðukennt blaður þá er verðugt verkefni fram undan og mikið verk óunnið. Það byggist á okkur öllum hv. þingmönnum sem sitjum hér hverju við viljum breyta. Hér er yfirlýsing um að við viljum gera eitthvað en síðan á eftir að koma í ljós í framtíðinni hvort við gerum eitthvað.

Ég fagna hins vegar því sem hv. þingmaður sagði um að styrkja nefndasviðið og einnig um aðkomu stjórnarandstöðunnar. Mig langar að nefna eitt af því að við hv. þingmaður eigum sæti saman í hv. fjárlaganefnd. Nú eigum við að funda í fjárlaganefnd í næstu viku, búið að senda út fundarboð og funda í þrjá daga frá 8 að morgni til 6 að kvöldi og ræða við sveitarstjórnarfólk í landinu. Við í hv. fjárlaganefnd höfum ekki fengið kynningu á því hvað kemur fram í fjárlagafrumvarpinu. Samt sem áður eigum við að ræða við sveitarstjórnarfólk um hvaða áhrif fjárlögin munu hafa á sveitarstjórnir. Það segir sig sjálft að við verðum að staldra við í nútíðinni og breyta því strax sem við getum breytt til batnaðar en ekki alltaf hugsa sem svo og ræða um það þannig að við breytum því í framtíðinni.