138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:21]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg sama hve fögur orð eru notuð, ef ekki er innstæða fyrir þeim fölna þau skjótt. Umræðan um skýrslu þingmannanefndarinnar er vonandi í heild jákvæð og eðlileg því að þar er safnað saman mörgum þáttum sem hafa verið ræddir í Alþingi um áratugaskeið. Í rauninni er ekkert nýtt í þeirri ágætu skýrslu nema að hlutunum er safnað saman.

Til að mynda, virðulegi forseti, kaflinn um meginniðurstöður um Alþingi þar sem fjallað er um liði eins og gagnrýni á störf og starfshætti Alþingis, að verja og styrkja sjálfstæði sitt, vera ekki verkfæri framkvæmdarvalds og oddvitaræðis, umræðuhefðin, hugrekki, festa og heiðarleiki í störfum, endurheimta traust þjóðarinnar, lagabreytingar. Þetta eru allt þættir sem unnið hefur verið að á Alþingi um langt árabil.

Þegar maður hefur setið á Alþingi og fylgst grannt með á þriðja áratug, gleymist auðvitað ekki að það koma alltaf upp þættir sem menn vilja gera betur og það er vel. Reynslan er þó alltaf sú að það hvort Alþingi er stjórnað af framsýni og djörfung, umburðarlyndi og á eðlilegan hátt í alla staði, er háð stjórn þingsins og ríkisstjórnar og ríkisstjórn hverju sinni. Það verður ekki slitið í sundur vegna þess að ríkisstjórn byggist á stuðningi stjórnarþingmanna.

Það er sannleikur málsins í hnotskurn. Auðvitað eru ákveðnir veikleikar í skýrslunni. Það er reynsluleysi svo margra ágætra þingmanna sem skipa nefndina sem fjallaði um málið. Það tekur mörg ár að læra á verklag Alþingis, virðulegi forseti, hefðir, takta og strauma. Fordæmin liggja alls staðar þó að sum þeirra falli stundum í þagnargildi af ýmsum ástæðum. Þetta varðar hinn daglega rekstur og daglegu stjórn í þingsal Alþingis. Í sjálfu sér er enginn munur á þingmönnum nú eða á fyrri árum, allir vinna af mestu kostgæfni og samkvæmt bestu samvisku, reynslan sýnir ekki annað.

Þess vegna er svolítið hættulegt að koma með upphrópanir eins og að nú sé komin fram sjálfstæðisyfirlýsing Alþingis. Alþingi er sjálfstætt frá A til Ö og menn mega ekki reyna að gera sig mektuga með því að blása upp lýsingar í þessa átt.

Það er margt gott að segja um skýrsluna, eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti. Þótt nú sé ekki verið að fjalla um þær tillögur um ákærur sem skýrsla hv. þingmannanefndar hefur boðað tengist það að sumu leyti óhjákvæmilega. Skýrslan er ágætis samantekt til að vinna eftir að framgangi betri starfshátta í þinginu. Sjálfsagt væri að hafa einhvern tíma sérstakan hugljómunarfund í þingsal og hafa opinskáa umræðu um hvað mætti betur fara án þess að vera í einhverju karpi. Þetta hefur aldrei verið gert en ég held að það sé alveg eins brúkleg og góð hugmynd og til að mynda hugmynd hæstv. forseta Alþingis. Hún sagði fyrir nokkrum dögum að auka þyrfti sjálfstæði þingsins við gerð fjárlaga með samstarfi þingsins, þingmanna, þingnefnda við fjárlaganefnd sem heyra ekki undir framkvæmdarvaldið. Það held ég að sé löngu tímabært og er besta tillagan sem ég hef heyrt í umræðunni undanfarna daga. Það skiptir máli að hafa aðstöðu til að vinna og ganga að upplýsingum sem eru eins pottþéttar og kostur er.

Ég er ekki að gera lítið úr starfi nefndarinnar þó að ég tali um reynsluleysi. Það segir sig sjálft að nýliðar, hvort sem er í skátastarfi, knattspyrnuliði eða öðru, þurfa ákveðinn tíma til að læra á ferilinn. Ef maður er í áhöfn skips þá er maður einn af heildinni og þarf að læra andrúmið sem fylgir hverju skipi, hverju verkefni sem við er að glíma.

Í einum veigamiklum þætti, kannski þeim veigamesta, tel ég að nefndin hafi brugðist hrapallega. Það er að geta ekki metið hvort hún átti eða gat tekið mark á því að vinna eftir lögum um landsdóm. Reynsla, brjóstvit, réttarkerfið, reglur okkar samfélags byggja á því að fara eftir ákveðnum leikreglum. Þegar upp er staðið frá þeim þýðir ekkert að malda í móinn, þá er dómur fallinn. En nefndin fellur í þá hrikalegu gildru að taka sér það hlutverk að stefna að því að ákæra samþingmenn sína og það er ekkert lítið.

Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður sagði fyrir stuttu í fréttum að það væri gríðarlegt álag að hljóta ákæru, hvað þá að hljóta sakfellingu. Ákæran er lítilsvirðing, hún er ádeila, hún er ábending og fullvissa um það að menn hafi brotið af sér. Það má oft deila um gjörðir ráðherra og mörg eru dæmin.

Ég gæti nefnt dæmi við fjárlagagerð síðustu áratuga, til að mynda dæmi sem tengjast hæstv. fjármálaráðherra en það er engin ástæða til að ala á því. Mistök geta skeð en það er ekki hlutverk alþingismanna að ákæra þingmenn. Það er skömm við lýðræðið, réttarríkið og sjálfstæði Íslands. Það er alvara málsins.

Að byggja á dómstól, landsdómi, sem er úreltur og ónýtur, hann er fúinn og feyskinn — fulltrúar hv. þingmannanefndar áttu að víkja honum til hliðar. Hluti þeirra hefur gert það en ekki nema hluti. Þeir sem vilja standa að því að ákæra þingmenn, ákæra ráðherra fyrir hluti sem er ekki hægt að ákæra fyrir — það er kannski hægt að ákæra en ekki er hægt að sakfella. Það á ekki að ákæra nema miklu meiri líkur séu en minni á því að menn hljóti sakfellingu eftir ákæruna.

Af hverju er þá verið að standa í þessum skrípaleik? Við höfum engan tíma fyrir svona skrípaleik. Við höfum engan tíma, hæstv. virðulegi forseti og hv. þingmenn. Við eigum að snúa okkur að verkefnum sem morgundagurinn kallar á, dagurinn í dag líka, og ættum ekki að eyða meiri tíma á þá umræðu. Þess vegna ætti ég í rauninni að ljúka máli mínu en ég ætla að halda áfram aðeins lengur.

Ég hef miklar áhyggjur af einu sem ákveðnir hópar þingmannanefndar hafa sett fram og það varðar mannréttindi. Það varðar virðingu fyrir fólki, tillitssemi og að sýna kærleik í daglegu starfi og framkomu gagnvart samborgurum okkar. Það er engin spurning að þeir sem hafa lent í alvarlegum sjúkdómum búa við minna mótstöðuafl á margan hátt. Það er þekkt hvunndags bæði hjá körlum og konum. Áreitið, ágjöfin, pressan, ádeilan verður þrúgandi og dregur máttinn úr fólki. Er hlutverk hv. alþingismanna að draga máttinn úr starfsbræðrum sínum á Alþingi? Er hlutverk þeirra að særa fjölskyldur og persónur og veikja stöðuna þegar málstaðurinn er ekki sterkari en þetta? Þetta á ekki að viðgangast, virðulegi forseti.

Það þekkja allir þá reynslu og hvernig áreitið virkar. Í þessu ferli er, að mínu mati, virðulegi forseti, mannvonska að ætla að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra. Það er mannvonska og engin rök standa til þess nema síður sé. Til hvers er þá leikurinn gerður? Hverjir eru að gera sig mektuga með því að setja sig í dómarasæti á engum forsendum? Dettur einhverjum í hug í raun og veru að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, hafi vísvitandi sýnt afglöp í starfi? Menn geta gert mistök og menn geta gert afglöp. Ef einhver getur bent á að hv. þingmaður fyrrverandi hafi gert vísvitandi afglöp er hægt að kalla á það því ekki er hægt að benda á það.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vann ötult verk sem stjórnmálamaður og hún er tvímælalaust einn af hæfustu stjórnmálamönnum á Íslandi um árabil. Það er ákveðin fórn að standa í fremstu víglínu í stjórnmálum, það er ákveðin fórn sem til að mynda ráðherrar færa umfram marga aðra því að þeir eru í skotmarki fyrir svo mörgu sem aðrir sleppa við. Það á að virða það og meta það en ekki að hrækja á þá ákærum sem þess vegna geta boðað fangelsi.

Það er ótækt, virðulegi forseti, að þetta gangi fram með þessum hætti. Dettur einhverjum í hug að ákæra talsmenn í hópi björgunarsveitarmanna þótt þeir þurfi að taka ákvarðanir sem kunna að orka tvímælis eftir á en eru gerðar með bestu vitund og yfirsýn á líðandi stundu? Auðvitað dettur engum í hug að gera slíkt. Lífið er þannig óvænt og síbreytilegt að menn þurfa stundum að taka skjótt ákvarðanir sem eftir á að hyggja hefðu kannski verið betri á einhvern annan hátt. En þannig er ekki lífið og við á Alþingi getum ekki ætlað okkur að dæma hvar mörkin liggja milli skynsemi eða ofbeldis.

Ef stjórnmálamenn ætla að dæma hver annan getum við gert það í ræðustól. Þar getum við skipst á skoðunum með rökum eða rakaleysu en það er ekki réttarkerfi. Þótt réttarkerfi Íslendinga sé veikt að mörgu leyti og minni stundum frekar á að það sé gert fyrir bananalýðveldi og jafnvel bavíanalýðveldi þá getum við ekki breytt þessum hlutum í nútímasamfélagi og -þjóðfélagi. Það er fáránlegt að þingmenn séu settir í þá stöðu og enn fáránlegra að þeir skuli taka það á sig að láta flæða út um allt og gera sig að yfirdómara. Það var fáránlegt þegar hæstv. forsætisráðherra lýsti tilganginum með gjörningi alls málsins þegar fréttamaður ríkissjónvarpsins spurði hæstv. forsætisráðherra: Heldurðu að þetta rói fólkið? Hæstv. forsætisráðherra svaraði: Það var tilgangurinn með því að setja ferlið af stað.

Hvað er að þessu fólki, virðulegi forseti? Hvað er að forsætisráðherra sem tekur þannig fram hluti sem forsætisráðherra Íslands getur ekki sagt? Með orðavali sínu, með einni setningu, ákveður hún að hunsa þá vinnu sem þingmannanefndin hefur lagt fram. Með orðum forsætisráðherra er öll sú vinna sem þingmannanefndin lagði á sig á síðustu mánuðum ónýt, hún er marklaus. Hún er marklaus vegna þess að réttarkerfið byggir ekki á því, virðulegi forseti, að sefa. Það byggir á réttlæti sem allir verða að búa við.

Um tíma vann ég í Afríku. Þar voru ættbálkar sem refsuðu fólki, jafnvel fólki sem var við það að líða dauða af sulti og krækti sér í hrísgrjón, með því að höggva af því höndina. Dómstólar gömlu kommúnistaríkjanna í Austur-Evrópu fyrr á árum voru skelfilegir. Við þekkjum tímabil úr Íslandssögunni, Sturlungaöld, sem er ömurlegasta tímabil Íslandssögunnar vegna þess að þá skemmtu menn sér við að vega hver annan. Nú er hv. þingmannanefnd komin í hlutverk manna á Sturlungaöld að heimta fébætur án þess að geta lagt rök fram í málinu fyrir því.

Hvaða hringavitleysa er þetta? Ekki einu sinni Bakkabræðrum hefði dottið í hug að vinna úr þessu svona og voru þeir þó frjálslyndir í mörgu er sneri að lausnum á málum.

Virðulegi forseti. Skýrslan í heild er ágæt ábending til að vinna eftir en framhaldið sem fylgir er skelfilegt.