138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[17:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir ræðu hennar og innlegg í þessa mikilvægu umræðu um niðurstöðu þingmannanefndarinnar. Mér fannst þetta öllu málefnalegri nálgun en sú sem við fengum að heyra frá hæstv. fjármálaráðherra og formanni þess flokks sem hún er varaformaður fyrir, þ.e. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þannig að það sé sagt hér.

Hæstv. ráðherra kom inn á tvennt. Annars vegar hlutverk háskóla og hún talaði m.a. um að við ættum hugsanlega að fara yfir háskólasamfélagið og endurskoða lögin og ég er henni sammála. Við samþykktum, mig minnir að það hafi verið 2005, rammalöggjöf um háskóla sem undirstrikaði sjálfstæði háskólanna frá ríkisvaldinu. Eitt meginhlutverkið var að undirstrika sjálfstæði háskólanna en einnig að veita þeim eftirlit og aðhald með ákveðnum gæðakröfum og alþjóðlegum gæðastöðlum og það var vel. Breið samstaða náðist um þetta og ég vil því beina því til hæstv. ráðherra að ef fara á í endurskoðun á þessu mikilvæga regluverki, því háskólarnir eiga vissulega að standa undir samfélagslega mikilvægu hlutverki, að það verði þá breið samstaða bæði við fræðasamfélagið en ekki síður við Alþingi. Ég vil beina því til hæstv. ráðherra.

Hitt vil ég segja að ég er algerlega ósammála þeirri nálgun sem tengist fjölmiðlastofu og ég talaði m.a. um það í ræðu minni um fjölmiðlafrumvarpið. Ég beitti mér gegn fjölmiðlastofu sem ráðherra og vildi hvorki stofna né setja slíka stofnun á laggirnar því að slík opinber stofnun kostar útlát og er ekkert garantí fyrir því að fjölmiðlar verði ábyrgari en þeir hafa verið fram til þessa.

Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi upplýsingar frá fjölmiðlum um það hvernig og hvort þeir hafi þegar brugðist við ábendingum frá rannsóknarskýrslunni og nú frá þingmannanefndinni. Hefur (Forseti hringir.) hún þessar upplýsingar og þá ekki síst frá Ríkisútvarpinu?