Málshöfðun gegn ráðherrum

Föstudaginn 17. september 2010, kl. 10:33:48 (0)


138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:33]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Að gefnu tilefni vil ég upplýsa að áður en skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom fram 12. apríl síðastliðinn átti þingmannanefndin með sér marga fundi og setti sér m.a. verklagsreglur. Í þeim segir meðal annars að gögn sem varða ráðherraábyrgð séu bundin trúnaði. Við kölluðum eftir minnispunktum og minnisblöðum frá ýmsum sérfræðingum þar að lútandi. Þeir hafa a.m.k. tveir af þeim ekki samþykkt að þessi hráu vinnubrögð þeirra verði lögð fram. Ég vil líka minna á að þetta er ekki venjulegt þingmál úr nefnd heldur, eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á, erum við í hlutverki ákæruvalds. Þar kunna að gilda allt önnur sjónarmið en almennt gilda. En ég hef hins vegar ákveðið það og við funduðum um þetta. Það er ekki ég sem tek ákvörðun um þetta sem formaður nefndarinnar heldur hafa allar ákvarðanir í þingmannanefndinni verið teknar af nefndinni sameiginlega. Við munum í þinghléi funda um þetta mál frekar. Við funduðum um það fyrir helgi en við munum gera það aftur í hádegishléi.