Málshöfðun gegn ráðherrum

Föstudaginn 17. september 2010, kl. 10:52:10 (0)


138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:52]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Við höfum á síðustu dögum verið að tala um ný vinnubrögð og nýja orðræðu hér á vettvangi þingsins. Ég gat ekki heyrt það hjá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu, hv. þm. Jóni Gunnarssyni, að hann væri kominn upp úr þeim hjólförum sem Alþingi Íslendinga hefur verið í á undangengnum mánuðum. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti er búin að lýsa því yfir að hún muni kalla formenn þingflokka á sinn fund í hádeginu. Þingmannanefndin getur líka fundað í hádeginu. Við erum að verða búin að ræða um þetta mál í 25 mínútur einmitt í anda gömlu umræðunnar. Getum við ekki leyft þessari umræðu að fara af stað og leyst úr málum í sameiningu og samvinnu á vettvangi þingsins, á fundum á milli þingflokka, í stað þess að karpa um málið fram og til baka á þinginu? Þetta mál á skilið allt aðra umræðu en hér hefur farið fram. (Gripið fram í.)