Málshöfðun gegn ráðherrum

Föstudaginn 17. september 2010, kl. 10:59:47 (0)


138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú ber svo við að ég get gert öll orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar að mínum. Er þetta nú ekki eitthvað, góðir þingmenn sem við leysum einfaldlega með því að setjist yfir það og funda um það? Það liggur í hlutarins eðli að Alþingi og alþingismenn þurfa iðulega að taka við gögnum í trúnaði starfa sinna vegna. Það getur verið vegna samskipta við þá sem gögnin láta af hendi, það getur verið af persónuverndarástæðum, það getur verið vegna þess að ríkir viðskiptahagsmunir eða almannahagsmunir eiga í hlut og eins og nú bætist við vegna rannsókarhagsmuna eða hlutverks Alþingis sem ákæruvalds í þessu tilviki.

Það er auðvitað æskilegast að reglur liggi fyrir fram fyrir um það hvernig menn takast á við slíkt og hvernig menn búa um það að tryggja síðan þingmönnum aðgang að upplýsingum sem er að sjálfsögðu mikilvægt. Það þarf ekki að ræða það hér í þingsalnum að að sjálfsögðu er það mikilvægt að menn geti haft gögn í höndum til að taka upplýsta afstöðu. Það er ekki eins og það sé að gerast í fyrsta skipti í sögunni að menn þurfi að greiða atkvæði í (Forseti hringir.) þingsalnum um hluti sem þeir hafa að hluta til kynnt sér í gegnum trúnaðargögn. Það eru til aðferðir til að leysa það og nýleg dæmi sem hægt er að vísa til í þeim efnum þar sem menn leggja þá trúnaðarskjöl upp til skoðunar með einhverjum hætti, (Forseti hringir.) þó þannig að trúnaðarins sé gætt.