Málshöfðun gegn ráðherrum

Föstudaginn 17. september 2010, kl. 11:52:16 (0)


138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:52]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í ákæruskjalinu er lagt til að hæstv. fyrrverandi ráðherrar verði ákærðir vegna aðgerðarleysis sem lýtur að því að hafa ekki fullvissað sig um að Icesave-reikningum Landsbankans yrði komið fyrir í dótturfélagi í Bretlandi. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvernig sá ákæruliður samræmist meginröksemdum Íslands í deilunni við Breta og Hollendinga. Þar hafa Íslendingar fyrst og fremst haldið því fram að þeir beri ekki lagalega ábyrgð á Icesave-reikningunum eða skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda en í þessari tillögu eru hæstv. fyrrverandi ráðherrar ákærðir fyrir að vanrækja þessar skyldur sínar — skyldur sem íslenska samninganefndin í Icesave-málinu vill alls ekki kannast við að Íslendingar hafi haft. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann: Telur hann að það séu ekki þversagnir í þessum málatilbúnaði öllum?