Málshöfðun gegn ráðherrum

Föstudaginn 17. september 2010, kl. 11:56:28 (0)


138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir þetta sjónarmið. Ég held að þetta sé nauðsynlegt. Allir sem hlýddu á ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar gera sér grein fyrir því að hann leggur afar mikið upp úr sjónarmiðum þessara sérfræðinga og þeirri röksemdafærslu sem þeir hafa fram að færa. Og það er auðvitað ekki boðlegt fyrir okkur hin, sem ekki höfum haft aðgang að þessum sjónarmiðum, að geta ekki lagt á það sjálfstætt mat, það er algjörlega óboðlegt.

Ef þessi sjónarmið eru hins vegar þess eðlis að þau eiga af einhverjum ástæðum ekki erindi, eru slíkt trúnaðarmál eða skipta það litlu máli að þau eigi ekki erindi inn í umræðuna, þá eru þau ekki heldur þess eðlis að hv. þm. Atli Gíslason geti byggt meginþungann í röksemdafærslu sinni á þeim.