Málshöfðun gegn ráðherrum

Föstudaginn 17. september 2010, kl. 12:05:38 (0)


138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:05]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sá tímarammi sem nefndinni var markaður og sem var síðan skertur um tvo mánuði varð til þess að það voru ýmis atriði sem nefndin hefði viljað skoða til hlítar en tókst ekki að ljúka. Það varðar ýmis atriði sem hér hefur verið bent á sem reyndar eru ekki í skýrslu þingmannanefndarinnar, lánshæfismötin og lánshæfi erlendra aðila sem lánuðu hingað inn, stjórnsýsluúttektir o.fl.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að þessi skýrslugerð kom til tals þremur eða fjórum dögum áður en við skiluðum skýrslu en við brunnum inni á tíma. Ég er hins vegar algerlega sammála hv. þingmanni í því að nefndin þarf að draga þessa lærdóma af starfi nefndarinnar í þeirri stöðu sem við vorum í sem nefndarmenn með þennan kaleik. Það held ég að ég geti sagt að er geymt en ekki gleymt.