Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 11:08:19 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:08]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. ræðumanni fyrir ágætan málflutning hér áðan.

Mig langar að spyrja um tvö atriði sem koma fram í tillögu hv. þingmanna Magnúsar Orra Schrams og Oddnýjar Harðardóttur.

Í greinargerð með tillögu þeirra segir, með leyfi forseta:

„Í öðru ráðuneyti Geirs H. Haardes fóru oddvitar stjórnarflokkanna tveggja, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, inn á valdsvið annarra ráðherra.“

Þetta er afar athyglisverð fullyrðing og raunar mjög alvarleg ef hún er á rökum reist. En þar liggur hundurinn grafinn, þessi fullyrðing er ekki rökstudd með neinum hætti í greinargerð hv. þingmanna. Í greinargerðinni er hins vegar vísað í bls. 291 í 7. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en þar er hvergi að finna þessa fullyrðingu. Ég hlýt því að draga þá ályktun að þessi fullyrðing byggi á nýjum upplýsingum sem þingmannanefndin hafi viðað að sér í sínum störfum.

Því spyr ég: Hvaða upplýsingar höfðu flutningsmenn tillögunnar undir höndum til að byggja á þessa ályktun sína að umræddir oddvitar stjórnarflokkanna hafi farið inn á valdsvið annarra ráðherra?