Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 12:05:48 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú um helgina lágu frammi þau gögn sem nefndin hafði sér til stuðnings í störfum sínum í sumar og fram á haust. Ég vil nota tækifærið til að þakka forseta fyrir hennar atbeina til að tryggja aðgang. Það verður þó að segja eins og er að hann hefur verið takmarkaður og hafa gögnin legið frammi í hliðarherbergjum. Þegar ég fór um helgina og blaðaði í gögnunum varð ég eiginlega steinhissa yfir að tilefni hefði þótt til að halda þessum gögnum frá almenningi í landinu.

Vel má vera að segja megi um einhvern afskaplega takmarkaðan hluta þessara gagna að um þau þurfi að ríkja trúnaður og þá þarf ég að heyra betur rökstuðninginn fyrir því. En uppistaðan að þessu eru bara vinnugögn frá nefndasviðinu, álitsgerðir og samantektir. Við skulum taka sem dæmi reifun á Ninn-Hansen-málinu, Tamílamálinu frá Danmörku, af hverju í ósköpunum er einhverri samantekt á slíku máli haldið frá fólki? (Forseti hringir.) Hvers vegna í ósköpunum er þetta lokað inni í herbergi sem trúnaðargagn? (Forseti hringir.) Við þurfum að taka þessa ákvörðun til endurskoðunar.