Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 12:39:33 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir ágæta ræðu. Ég vil undirstrika að skýrslan sem kom frá nefndinni var vel unnin og ég hef dásamað hana í hástert. Það er ekki þar með sagt að ég eigi að fallast á allt sem nefndin gerði. Hv. þingmaður sagðist treysta réttvísinni. Nú er það þannig við góð réttarhöld að rannsakað er fyrst og síðan ákært. Það sem nefndin gerði er að hún fór í gegnum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem ekki er hægt að nota. Það er alls ekki hægt að nota hana, þar höfðu menn ekki stöðu sakbornings. Í rauninni er öll vinna nefndarinnar ónýt til að byggja á henni ákæru. Hún átti að rannsaka sjálf og til þess hafði hún heimildir. [Hlátur í þingsal.] Þetta er nefnilega það sem réttarríkið gengur út á. Það getur vel verið að hv. þingmenn í Hreyfingunni hlægi að því, þeir vilja kannski ekki réttlát réttarhöld en það er venjan að rannsaka fyrst og ákæra svo. (Gripið fram í: … öfugt.)