Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 12:41:40 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað áttu menn að rannsaka. Ef heimildir vantaði til að menn hefðu réttarstöðu sakbornings, sem þeir höfðu því það stóð til að kæra þá, átti bara að afla þeirra. Það hefði ekki staðið á því.

Síðan sagði hv. þingmaður líka að við yrðum að finna sökudólg. Hvernig sýnum við vandlætingu á störfum ráðherra? Við gerum það t.d. í rannsóknarskýrslunni miklu. Þar er heldur betur vandlæting á störfum ráðherra. Ég er ekki viss um að hv. þingmaður eða ég mundi vilja hafa slík eftirmæli í opinberum gögnum. Þess vegna eru allir búnir að segja af sér, þetta fólk er allt búið að segja af sér. Það er heldur betur búið að sýna vandlætingu á störfum þeirra. Þarf að gera meira? Þarf að gera meira en það sem stendur um þetta fólk í skýrslu rannsóknarnefndarinnar? Mér þykir það yfrið nóg.