Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 12:48:56 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og samstarfið í nefndinni sem hefur verið ágætt. Ég hjó eftir því í orðum hv. þingmanns sem ég hélt nú að væri misheyrn hjá mér að hann sagði í byrjun ræðu sinnar að það væri vegna afstöðu minnar og annars hv. þingmanns í nefndinni til þess hvernig taka ætti á vanrækslu ráðherra sem hann hefði ekki átt annan kost en að standa að þessum ákærum. Það var endurtekið í andsvari og ég er nú svo hlessa að ég verð eiginlega að fá nánari útskýringar á orðum hv. þingmanns. Við þingmenn erum öll bundin af okkar eigin sannfæringu og þar sem hv. þingmaður talaði um samvisku sína áðan ætla ég ekki að fara að hafa það á samviskunni að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sjái sér ekki annað fært en að ákæra fólk, þá væntanlega að ástæðulausu.