Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 12:50:00 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:50]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur einnig fyrir samstarfið. Við höfum getað náð saman á mjög mörgum sviðum og ég held að skýrsla þingmannanefndar sanni það einmitt. Hér hefur verið talað um það í marga daga, og ekki síst af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að þingmannanefndin sjálf hafi verið einhvers konar sannleiksnefnd og það hefði verið æskilegt að menn kæmust að sameiginlegri niðurstöðu. Ég benti á í upphafi ræðu minnar að það hefði verið himinn og jörð á milli skoðana hv. þingmanna, sem eru sannarlega þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og annarra í nefndinni um vanrækslu í rannsóknarnefndarskýrslunni. Það náðist ekki neitt samkomulag um það atriði. Það hefði verið áhugavert ef það hefði verið og ég veit ekki til hvers það hefði leitt (Forseti hringir.) en ég var búinn að fara yfir það í orðum mínum með hvaða hætti maður kemst að niðurstöðu í sambandi við hvort ákæra beri ráðherra og kalla saman landsdóm.