Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 14:20:12 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég taldi rétt að vekja athygli á þessu atriði sérstaklega vegna þess að mér fannst ræða hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fjalla um svo marga aðra hluti en þá spurningu sem við stöndum frammi fyrir í þessum sal gagnvart þessum tillögum. Við vorum hér í síðustu viku og höfum ótal sinnum áður rætt afleiðingar hrunsins, m.a. í tilefni af skýrslu þingmannanefndarinnar, og allt gott um það að segja, en það sem við erum að ræða núna eru þessar ákærutillögur og hvort forsendur séu fyrir að fara í ákærur á þeim grundvelli. Mér fannst af ræðu hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að hún teldi að niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis sem Páll Hreinsson veitti forstöðu og síðan niðurstöður þingmannanefndarinnar sjálfrar fælu einhvern veginn í sér þá skyldu þingmanna bæði að leggja til ákærur og greiða atkvæði með ákærum. Það er sjónarmið sem ég get ekki fallist á, alls ekki, (Forseti hringir.) heldur er þetta sjálfstætt úrlausnarefni og þar hef ég komist að annarri niðurstöðu en hv. þm. Birgitta Jónsdóttir.