Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 14:31:09 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um málshöfðun gegn fyrrverandi ráðherrum í öðru ráðuneyti Geirs H. Haardes vegna refsiverðrar háttsemi þeirra í embættisfærslu sinni á árinu 2008. Eftirtaldir hv. þingmenn eru flutningsmenn að tillögunni: Atli Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Eygló Harðardóttir og Birgitta Jónsdóttir. Í þingsályktunartillögunni er lögð til málshöfðun gegn eftirtöldum fyrrverandi ráðherrum: Geir H. Haarde forsætisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra, Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra og Björgvini G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra.

Áður en ég reifa nokkur þau kæruatriða sem fram koma í þeirri þingsályktunartillögu sem meiri hluti þingmannanefndarinnar lagði til um málshöfðun gegn fyrrverandi ráðherrum vil ég fara yfir hlutverk þingmannanefndarinnar og þann lagagrundvöll sem hún byggir á.

Í 6. mgr. 15. gr. laga um rannsóknarnefnd Alþingis kemur fram að kosning þingmannanefndarinnar hafi sömu réttaráhrif og kosning rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til athugunar á störfum ráðherra sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um ráðherraábyrgð. Með ákvæðinu var þingmannanefndinni þannig falið það hlutverk að taka afstöðu til framgöngu ráðherra í aðdraganda hrunsins og leggja í framhaldinu mat á hvort tilefni væri til málshöfðunar fyrir landsdómi vegna brota á lögum um ráðherraábyrgð skv. 13. gr. laga um landsdóm. Þingmannanefndinni sem falið var það fordæmalausa og gífurlega erfiða verkefni að leggja mat á brot á ráðherraábyrgðarlögum sem byggt væri á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var því mikil ábyrgð falin og lagði hún sig alla fram við að kynna sér öll málsgögn, kalla til sín færustu sérfræðinga á sviði laga og réttarfars og leita ráðgjafar og fá lögfræðilegt álit um lagaskilyrði fyrir landsdómsmeðferð.

Þegar farið er yfir málsatvik og ráðherraábyrgðarlögin og metið hvort lagaskilyrði séu til staðar til að höfða sakamál gegn fyrrverandi ráðherrum fyrir landsdómi verður fyrst og fremst að horfa til efnisatriða málsins og fram hjá þeim einstaklingum sem þar eiga í hlut. Dómgreind og hlutlægt mat á þeim gögnum og sérfræðiálitum sem lögð eru til grundvallar verða að ráða för þegar Alþingi tekur þá erfiðu ákvörðun hvort fara eigi fram með málshöfðun gegn fyrrverandi ráðherrum.

Landsdómur fer með og dæmir þau mál er Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra. Í landsdómi eiga sæti 15 dómendur og í 13. gr. laga um landsdóm segir að málshöfðun gegn ráðherra skuli gerð með þingsályktunartillögu fyrir Alþingi og skulu kæruatriði nákvæmlega tiltekin. Landsdómur er eitt dómstig og kýs Alþingi sér saksóknara til að sækja mál fyrir landsdómi. Þar fer fram rannsókn málsins og vörn málsaðila, og verjanda er skylt að draga fram allt er verða má ákærðum til sýknu eða hagsbóta.

Til umræðu hefur verið hvort landsdómur uppfylli mannréttindi þar sem ekki er hægt að skjóta niðurstöðu landsdóms fyrir æðra dómstig. Þeir sérfræðingar sem þingmannanefndin leitaði aðstoðar hjá töldu svo vera og tekið var sem dæmi mál fyrrverandi dómsmálaráðherra Danmerkur, Eriks Ninn-Hansens, sem dæmdur var fyrir danska ríkisréttinum 1995, en ríkisrétturinn er líka eitt dómstig. Erik Ninn-Hansen skaut málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu og var málinu vísað frá auk þess sem hvorki var fundið að einu dómstigi né hinum þingkjörnu dómurum í ríkisréttinum.

Meiri hluti þingmannanefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að refsiskilyrði og réttarfarsskilyrði séu fyrir hendi hvað varðar fjóra fyrrverandi ráðherra og lýkur á sakfellingu meiri en 51%. Þessa niðurstöðu byggir hún á þeim sérfræðiálitum sem lögð voru fyrir nefndina, munnlegum skýrslum sérfræðinga og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er ítarleg og afgerandi. Í niðurstöðum hennar hefur verið tekið tillit til andmæla þeirra sem flutningsmenn þingsályktunartillögunnar leggja til að ákærðir verði. Sönnunarfærsla og rannsókn fer fram fyrir landsdómi ef Alþingi samþykkir málshöfðun gegn fyrrverandi ráðherrum.

Ég mun nú koma inn á nokkur þau kæruatriða sem koma fram í þingsályktunartillögunni.

Lagt er til að Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, verði ákærður fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð. Fyrrverandi forsætisráðherra er talinn hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem honum var eða mátti vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hætti fyrir heill ríkisins. Einnig fyrir að hafa vanrækt að halda ríkisstjórnarfundi um mikilvæg málefni skv. 17. gr. stjórnarskrár Íslands. Það er mat rannsóknarnefndar Alþingis að 7. febrúar til 15. maí 2008 hafi verið komnar nægjanlegar upplýsingar til að fyrrverandi forsætisráðherra hefði mátt gera sér grein fyrir því að ríkir almannahagsmunir knúðu á um að hann hefði þá þegar frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins, eftir atvikum með sérstakri lagasetningu til að draga úr stærð bankakerfisins.

Lagt er til að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, verði ákærð fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð en fyrrverandi utanríkisráðherra er talin hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu í starfsskyldum sínum sem utanríkisráðherra og oddviti Samfylkingarinnar í ríkisstjórn andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem henni mátti vera kunnugt um. Einnig fyrir að hafa látið farast fyrir að framkvæma það sem 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins kveður á um, þ.e. skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Á þessu tímabili var lítið fjallað á ráðherrafundum um hinn yfirvofandi háska. Ekki var fjallað formlega um hann á ráðherrafundum og ekkert skráð um þau efni á fundunum. Með vísan til niðurstaðna rannsóknarnefndar Alþingis um þær alvarlegu upplýsingar sem utanríkisráðherra fékk á fundinum 7. febrúar 2008 og á vormánuðum 2008 og með tilliti til þess að hún var ein þeirra sem undirritaði yfirlýsingu norrænu seðlabankanna 15. maí 2008 telur meiri hluti þingmannanefndarinnar að utanríkisráðherra hafi haft allar forsendur til að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að aðhafast vorið 2008. Hér verður einnig að líta til stöðu hennar sem oddvita annars stjórnarflokksins og verkstjórnarskyldna hennar.

Lagt er til að Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, verði ákærður fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð. Fyrrverandi fjármálaráðherra er m.a. ákærður fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu í starfsskyldum sínum sem fjármálaráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði. Einnig fyrir að hafa ekki fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þess með virkri aðkomu ríkisvaldsins. Rannsóknarnefnd Alþingis kemst að þeirri niðurstöðu að fjármálaráðherra hafi verið skylt að hafa frumkvæði, með eigin aðgerðum eða tillögum til annarra ráðherra og að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á þeirri fjárhagslegu áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli. Komst rannsóknarnefnd Alþingis að því að með athafnaleysi sínu hefði fjármálaráðherra látið hjá líða að bregðast við yfirvofandi hættu á viðeigandi hátt og með því sýnt af sér vanrækslu.

Lagt er til að Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, verði ákærður fyrir brot framin á tímabilinu frá febrúar 2008 fram í október sama ár af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi og aðallega fyrir brot á ráðherraábyrgðarlögum, fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu í starfsskyldum sínum sem viðskiptaráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði. Þáverandi viðskiptaráðherra átti ekki frumkvæði að formlegum ráðherrafundi um ástandið sem verður að teljast alvarlegt, einkum í ljósi þeirra upplýsinga sem hann fékk af fundum samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis fékk viðskiptaráðherra upplýsingar um alvarlega stöðu bankanna af fundi 7. febrúar 2008 og hélt fund með bönkunum í framhaldi af því. Hann átti aðkomu að samráðshópnum og fékk upplýsingar strax í apríl um að seðlabankastjórar Evrópu teldu að íslensku bankarnir legðu að hluta til málamyndagerninga að veði fyrir lánum hjá seðlabanka Lúxemborgar. Einnig kemur fram að ráðherra hafi fengið fullnægjandi upplýsingar um starf samráðshópsins, en þar var t.d. flutningur Icesave-reikninganna ræddur ítrekað. Loks má geta þess að í maíbyrjun 2008 gerði fulltrúi viðskiptaráðuneytisins í samráðshópnum athugasemd við það að Tryggingarsjóður innstæðueigenda væri of lítill til að gegna hlutverki sínu, en 10 dögum áður höfðu Icesave-reikningar verið opnaðir í Hollandi. Telja verður að þetta hafi viðskiptaráðherra vitað eða mátt vita.

Mörg blikkandi aðvörunarljós og hættumerki í aðdraganda bankahrunsins koma fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem vakin skal athygli á hér. Frá byrjun árs 2008 fram á vor fengu íslensk stjórnvöld afar alvarlegar upplýsingar um stöðu íslensku bankanna og hættur fram undan í efnahagslífinu. Á fundi bankastjórnar Seðlabankans með forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra þann 7. febrúar er lýst yfir miklum áhyggjum af stöðu íslensku bankanna. Ekki verður séð að ráðherrar hafi á neinum tímapunkti fengið jafnalvarlegar upplýsingar og þar komu fram um hættur á efnahagsáfalli. Viðskiptaráðherra var upplýstur af utanríkisráðherra 11. febrúar um þennan fund. Á fundi bankastjórnar Seðlabanka Íslands með forsætisráðherra og utanríkisráðherra 1. apríl 2008 kom m.a. fram og kom til umræðu að 193 milljónir punda hefðu verið í útstreymi af Icesave-reikningum í útibúi Landsbanka Íslands í Bretlandi dagana þar á undan og að vænta mætti að Landsbanki Íslands gæti þolað slíkt útstreymi í sex daga.

Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kom út 14. apríl 2008 og var flokkuð sem trúnaðarmál. Hún fól í sér ítarlegar tillögur til íslenskra stjórnvalda um aðgerðir til að takast á við alvarlegar aðstæður í efnahagslífinu. Þann 15. maí 2008 var gengið frá yfirlýsingu íslenska ríkisins vegna gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Norðurlandanna en forsenda fyrir samningunum og skilyrði af þeirra hálfu var að íslenska ríkið beitti sér fyrir aðgerðum til að draga saman efnahagsreikninga bankanna með hliðsjón af tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. En stjórnvöld unnu ekki eftir þeirri yfirlýsingu sem gerð var. Ríkisvaldið hefði getað sett bönkunum reglur eða fyrirmæli um sölu eigna og þar með hefðu stjórnendur bankanna ekki haft neinn valkost og ekki eigendurnir heldur.

Samráðshópur sem settur var á fót 2006 og í voru fulltrúar forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra ásamt fulltrúum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands átti að vera vettvangur upplýsinga og umræðna um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Verulegir annmarkar voru á starfi hópsins. Samkvæmt því sem fyrir liggur um miðlun upplýsinga frá fulltrúum forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra og samráðshópnum til viðkomandi ráðherra um fjármálaóstöðugleika og nauðsyn á viðbúnaði verður að ganga út frá því að sömu ráðherrum hafi verið ljós þörfin á því að hafa frumkvæði að því að unnin yrði greining á fjárhagslegri áhættu íslenska ríkisins og ríkissjóðs vegna starfsemi íslensku bankanna hér á landi og erlendis eða einstakra þátta í starfsemi þeirra.

Einnig er vísað til funda samráðshóps stjórnvalda 21. apríl 2008. Þar var lagt fram skjalið Sviðsmynd fjármálaáfalls, tilgreind álitaefni og mögulegar aðgerðir og var skjalið unnið af Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands.

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að íslensk stjórnvöld hafi einkum átt tvo kosti til að takast með virkum hætti á við þá stigvaxandi hættu á falli bankanna sem uppi var, annars vegar að koma því til leiðar að minnka efnahag bankanna með sölu eigna og hins vegar að einhver þeirra flytti höfuðstöðvar úr landi.

Ítrekað er að íslensk stjórnvöld hefðu átt að leitast við að lágmarka tjón, þótt ekki hefði verið hægt að komast hjá því. Nú reynir á hvort Alþingi ráði við það hlutverk sem því er falið samkvæmt lögum um landsdóm og snýr að ákæruvaldi gagnvart lögum um ráðherraábyrgð. Alþingi er skylt að horfa til efnislegra þátta málsins og þess ítarlega rökstuðnings sem fram kemur í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu.

Sorglegt væri ef Alþingi félli á þessu fordæmalausa prófi sem fyrir það er lagt og léti flokkspólitísk sjónarmið ráða för. Ég treysti því að Alþingi sýni það hugrekki og þor að horfa fyrst og fremst til efnisþátta málsins en ekki þeirra einstaklinga sem hlut eiga að máli. Allir eiga að vera jafnir fyrir lögum, háir sem lágir, og fá réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum. Halda ber til haga þeirri grundvallarreglu að menn eru saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð. Fjórir sérfræðingar af fimm sem voru álitsgjafar og störfuðu fyrir þingmannanefndina töldu að refsiskilyrði og réttarfarsskilyrði væru fyrir hendi gagnvart þessum fjórum fyrrverandi ráðherrum samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð og að nægjanlegar líkur væru til sakfellis.

Með vísan til þessa sé ég ekki að Alþingi sé stætt á öðru en að fara með málið fyrir landsdóm og láta þar á það reyna hvort lög um ráðherraábyrgð hafi verið brotin í aðdraganda hrunsins.