Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 14:58:31 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Okkur sem störfuðum í þingmannanefndinni var falið að meta hvort höfða ætti mál gagnvart ráðherrum og byggja á skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Það var sá grunnur sem okkur var falið að byggja á samkvæmt lögum og það var okkar hlutverk að gera. Ef af verður að Alþingi samþykki málshöfðun á viðkomandi ráðherra sem um er rætt í þingsályktunartillögunni fer fram sjálfstæð rannsókn fyrir landsdómi. Þar fer fram málsvörn fyrir verjendur og þar er þá líka saksóknari af hálfu Alþingis. Þar fer fram sú málsvörn og þau réttarhöld sem kalla fram rök með og á móti. Það er ekki okkar hlutverk í þingmannanefndinni.