Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 15:32:31 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hv. forseti. Ég verð bara að ítreka svör mín. Ég stýrði því ekki hvenær ræða mín komst á dagskrá í þinginu. Ég hefði alveg viljað tala á föstudaginn, var tilbúin til þess ef það hefði létt mönnum að móta sér afstöðu til skoðunar minnar. Ég vona að ræða mín hafi varpað ljósi á afstöðu mína. Ég notaði ræðuna til að útskýra hvers vegna ég tel að ekki beri að gefa út ákæru í þessu máli.

Varðandi hvort ég hefði viljað sjá tímasetta áætlun um hvenær Icesave hefði farið úr landi, þá hefði það vissulega verið gott. Hins vegar verðum við alltaf, þegar við fjöllum um þessi mál, að líta til og lesa reglulega skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég vitna hér til kafla 1.8 á bls. 30 sem heitir „Horft til baka“. Hér segir, með leyfi forseta:

„Stundum er sagt að auðvelt sé að vera vitur eftir á. Aðstaðan er vissulega önnur þegar horft er til baka og tóm hefur gefist til að draga saman og vega og meta gögn og upplýsingar í ljósi þess sem síðar gerðist.“

Við verðum alltaf að dæma verkin í ljósi ástandsins (Forseti hringir.) sem ríkti á þeim tíma.