Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 15:35:34 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar maður tekur sæti í nefnd sem þessari, sem ég tel mig geta nokkurn veginn fullyrt að enginn hafi beðið um að fá að fara í, nálgast maður viðfangsefnið með opnum huga og viðfangsefnið var erfitt. Því hafa margir lýst hér. En við sem buðum okkur fram fyrir síðustu kosningar, öll sem eitt, vissum að okkar biðu ekki bara einföld verkefni. Ég ætla því ekki að væla yfir þessu verkefni. Maður sest einfaldlega niður og skoðar þau gögn sem eru fyrirliggjandi.

Ég hef starfað sem fulltrúi sýslumanns. Ég hef staðið í réttarsal og flutt mál gegn sakborningum þannig að ég tel mig hafa ágætan grundvöll til að standa að og leggja mat á hlutina. Ég fullyrði að hefði ég talið einhver efni til að gefa út ákærur á hendur einhverjum af fyrrum ráðherrum þjóðarinnar þá hefði ég að sjálfsögðu staðið að því. Ég hef hins vegar enga sannfæringu fyrir því að málið sé þannig vaxið að svo beri að gera. Það er mitt mat eftir að hafa skoðað lagaumgjörðina og fyrirliggjandi gögn. Varðandi röðina á ráðherrunum á einhverjum tímapunkti þá tel ég enga ástæðu til að fara sérstaklega yfir það. Það er einfaldlega mitt mat og það sama gildir fyrir alla þá ráðherra sem hafa verið starfandi frá áramótum 2007. Ég gat ekki fundið neitt í fyrirliggjandi gögnum sem sannfærði mig um að menn hefðu af ásetningi eða stórfelldu hirðuleysi ætlað sér að kalla þetta tjón yfir þjóðina.