Málshöfðun gegn ráðherrum

Mánudaginn 20. september 2010, kl. 15:41:58 (0)


138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þrátt fyrir að þingmannanefndin hafi leitað til sérfræðinga var ég ekki að tala niður til þeirra í máli mínu. Það var ágætt að fá álit þeirra á ýmsum spurningum sem við höfðum fram að færa. Hins vegar framseljum við ekki ákæruvald til sérfræðinga. Enginn, hvort sem þeir eru í þingmannanefndinni eða aðrir þingmenn, getur skýlt sér á bak við álit sérfræðinga. Þetta er okkar eigin ákvörðun og við leggjum það ekki á eitthvert fólk úti í bæ að það beri ábyrgð á afstöðu hér.

Varðandi það að ég hafi verið sammála félögum mínum í þingmannanefndinni um ýmislegt sem við töldum að betur hefði mátt fara, þá er það svo. Við vorum sammála um flestalla hluti í okkar vinnu. Hins vegar er langur vegur frá því að öll þau mistök sem nokkurn tímann hafa verið gerð, hvort sem var í aðdraganda bankahrunsins eða ekki, séu refsiverð. Himinn og haf er á milli þess að meta sem svo að einhver hafi gert mistök eða að telja að hann hafi gerst sekur um refsivert athæfi og eigi að fara í fangelsi eða greiða sektir í ríkissjóð. Ég vona að allur þingheimur geri sér grein fyrir að þar er himinn og haf á milli. Við þurfum að vanda okkur í sakamatinu. Ég fór yfir það í ræðu minni til hvaða atriða hv. þingmenn þurfa helst að líta. Ég hef enga sannfæringu fyrir því að þau mistök, sem greind eru í rannsóknarskýrslu Alþingis og ég ásamt öðrum hv. þingmönnum í þingmannanefndinni hef bent á, séu refsiverð. Ég hef enga sannfæringu fyrir því.